Hjarta litlu Fossvogsfrúarinnar tekur alltaf aukaslag þegar nýr IKEA bæklingur kemur inn um lúguna. Svona var þetta líka í dag og á núll einni áttaði þessi litla frú sig á því að hún yrði að gera eitthvað úr þessu. Það eru margar leiðir til guðs en eitt lá þó ljóst fyrir og það var að það þyrfti aðeins að tríta sig yfir jómfrúarferðinni.
Mögulega er hægt að elda örlítið betri mat en venjulega, fá sér jafnvel desert og svo er ekki slæmt að hafa freyðandi drykk í ílöngu glasi á fæti við höndina. Mikilvægt er að verða ekki fyrir neinni truflun á þessu sérstaka augnabliki og best að koma sér þægilega fyrir meðan nýjustu tískustraumar í innréttingum og aukahlutum eru drukknir í sig.
Þeir sem ekki fengu nýja IKEA bæklinginn inn um lúguna í dag þurfa ekki að örvænta, hann mun skila sér í hús fyrir helgi, ef ekki á morgun þá pottþétt á föstudaginn. Um er að ræða stærstu dreifingu ársins hjá Íslandspósti og hafa allir blaðberar fyrirtækisins lagt meira á sig en venjulega til þess að koma bæklingnum í hvert hús.
Þeir sem eru farnir að finna til líkamlegra og andlegra óþæginda vegna þess að nýi IKEA bæklingurinn hefur ekki skilað sér í hús þurfa ekki að örvænta. Með IKEA Catalogue appinu er hægt að skoða dýrðina í snjallsímanum. Þar lifna vörurnar við í 360° sýndarveruleika og hægt er að sækja sér innblástur með því að máta IKEA húsgögn inn á heimilið. Íslenska útgáfan opnast á miðnætti í kvöld fyrir þá sem eru alveg friðlausir. Þeir sem hlaða niður appinu fyrir þann tíma sjá niðurtalningu að þeim tíma þegar hægt verður að setja Billy bókaskápa og fleiri þekktar vörur rafrænt beint í inn í herbergið sem staðið er í. Allt verð í vörulistanum hefur sem kunnugt er lækkað um 2,8% að meðaltali frá fyrra ári.
Breyttur lífstíll í eldhúsinu
Eldhúsið er í forgrunni hjá IKEA í ár. Hið nýja IKEA eldhús tekur mið af breyttum lífsstíl nútímafólks. Í dag gegnir eldhúsið miklu víðameira hlutverki en að búa bara til mat þar. Í eldhúsum nútímans er safnast saman, þar er lært, slakað og spjallað. Það er þó pínulítið sláandi að rýna í tölur því nýjustu rannsóknir sýna að 36% borgarbúa borða aldrei í eldhúsinu né borðstofunni á virkum dögum. Tímaþröng nútímafólks hamlar fólki við matseld og fjórðungur fólks er með nagandi samviskubit yfir eigin matarsóun.
IKEA ákvað að snúa vörn í sókn og fékk Siggu Heimis iðnhönnuð til þess að hanna nýja vörulínu sem á að hjálpa fólki við að sporna við matarsóun. Til að gera línuna ennþá meira spennandi fékk Sigga stelpurnar í Reykjavík Letterspress til að hanna alla pappírsdíteila í línunni.