Nýr kafli hefst í sögu Hótel Borgar þegar tekin verður í notkun glæsileg viðbygging með 43 herbergjum í Art Deco-stíl, ásamt heilsulind og líkamsræktarstöð. Á Borg Restaurant matreiða meistarakokkar í nýju og sérhönnuðu eldhúsi, undirbúa fundi og hátíðlegar veislur í Gyllta salnum og bjóða gesti velkomna í Karolínustofu
Á dögunum hlaut Hótel Borg viðurkenningu World Travel Awards sem besta hótelið á Íslandi og er það raunar í annað sinn sem því hlotnast sá heiður, að sögn Ólafs. „Verðlaunin eru ein þau virtustu í ferðaþjónustu í heiminum og það má með sanni segja að þau komi á ánægjulegum tíma. Við höfum ríka ástæðu til að gleðjast og gera okkur dagamun hér á Hótel Borg og það munum við gera í byrjun október, þegar við tökum ný herbergi, heilsulind, veislusali og eldhús formlega í notkun, fögnum verðlaununum og höldum um leið upp á 85 ára afmælið.“
Við stækkun Hótel Borgar var hluti bakhúss rifinn og þar reist fjögurra hæða viðbygging, sem fellur vel að heildarmyndinni. Með nýja húsnæðinu stækkar hótelið um tæpan helming og eru herbergin nú 99 talsins. „Segja má að Hótel Borg sé nú loksins komin í rétta stærð,“ segir Ólafur.
„Í kjallara nýju byggingarinnar er að finna glæsilegt spa og líkamsræktarstöð, sem er löngu tímabær viðbót við þjónustuna. Við höfðum lengi skynjað þörfina fyrir heilsuræktarstöð í miðborginni, ekki aðeins fyrir okkar hótelgesti heldur einnig fyrir þá sem búa og starfa í 101 Reykjavík, og vel má vera að aðstaðan standi fleirum til boða en gestum Hótel Borgar, í fyllingu tímans. Með nýju heilsuræktinni opnast nú möguleiki á því að breyta Hótel Borg úr fjögurra yfir í fimm stjörnu hótel, en við ætlum þó að halda í horfinu hvað það varðar, enn um sinn.“
Hótel Borg var reist 1930 af athafnamanninum Jóhannesi Jósefssyni; húsnæðið var endurgert á árunum 2006 til 2008 og eru framkvæmdirnar nú á sömu nótum, að sögn Ólafs. „Við erum ákaflega stolt af þessu húsi, glæsilegum hönnunarstíl Guðjóns Samúelssonar og 85 ára sögu þessarar fallegu byggingar. Heiðurinn af breytingunum nú eiga THG Arkitektar, ásamt Aðalsteini Karlssyni, og hafa þeir unnið afar gott starf.
Herbergin í nýbyggingunni eru líkt og þau sem fyrir voru afar vel búin með glæsilegu parketi á gólfum og marmara á baðherbergjum. Baðkör og sturtur eru á öllum 43 herbergjum, auk alls þess búnaðar sem tilheyrir fyrsta flokks hóteli. Í nýju herbergjunum, rétt eins og á hótelinu öllu, eru sérsmíðuð þýsk gæðahúsgögn í Art Deco-stíl, sem fullkomna heildarmyndina.“
Móttaka Hótel Borgar hefur verið færð og stækkuð og tengir nú saman byggingarnar tvær – hið nýja og gamla. Þar er marmari á gólfum, eins og var í upphafi, og yfir móttökunni hangir glæsilegt málverk eftir Karolínu Lárusdóttur, barnabarn Jóhannesar í Borg. Inn af anddyrinu er söguhorn Hótel Borgar, sem nú er gert hærra undir höfði með ítarlegri upplýsingum um sögu hússins, ljósmyndum frá fyrri tímum og ýmsum húsmunum sem varðveist hafa.
Endurbætur á Gyllta salnum miðuðu að sögn Ólafs að því að færa salinn í upprunalegt horf. „Lagt var nýtt gólfefni, vandað parket úr ljósum og dökkum við, með sama mynstri og prýddi upphaflega gólfefnið sem var úr korki. Veggfóður er í anda fyrri tíma og gyllt, eins og vera ber, og við létum sérsmíða fyrir okkur nokkur veggljós, til viðbótar við þau sem fyrir voru í salnum, sem eru nákvæm eftirlíking.“
Skuggabarinn á Hótel Borg tilheyrir nú sögunni; þar var allt rifið út og endurhannað og heitir nú Karolínustofa, nefnd eftir fyrri eiginkonu Jóhannesar á Borg. „Karolína var merkileg kona sem átti stóran þátt í því að móta Hótel Borg og okkur fannst vel við hæfi að halda minningu hennar á lofti með þessum hætti.
Í Karolínustofu er eins og áður glæsilegur bar og inn af honum tveir veislusalir, með fullkominni aðstöðu til funda- og ráðstefnuhalds. Hægt er að opna á milli salanna tveggja, þannig að úr verði einn stór, og með því að láta viðburði eða veislur flæða yfir í Gullna salinn getum við auðveldlega slegið hér upp 600 manna veislu.“
Veitingastaður hótelsins, Borg Restaurant, var tekinn í gegn fyrir tveimur árum og var þá lögð áhersla á að endurhanna staðinn í anda Art Deco. „Þar er allt nýtt, bæði húsgögn, veggklæðning og innanstokksmunir, og gólfefni er það sama og í Gyllta salnum og Karolínustofu; ljóst og dökkt parket með sama mynstri og var á hinu upprunalega korkgólfi,“ segir Ólafur.
„Í þessum áfanga sem nú er að ljúka var eldhúsið rifið og sérhannað nýtt, fullkomið veislueldhús í nánu samstarfi við Völund Snæ Völundarson matreiðslumeistara og konu hans, Þóru Sigurðardóttur, en þau sjá um alla veitingaþjónustu á Hótel Borg. Með nýja eldhúsinu getur Borg Restaurant nú tekið við allt að 260 manns í mat. Á meðan á framkvæmdum stóð þurfti að takmarka þjónustuna og því var ekki opið í hádeginu en nú fer reksturinn aftur í fullan gang, með veitingaþjónustu frá klukkan sjö að morgni til ellefu á kvöldin.“
Að mati Ólafs eru hinar miklu endurbætur á Hótel Borg, ásamt viðbyggingunni, afar vel heppnuð framkvæmd og öllum sem komu að þessu stóra og metnaðarfulla verkefni til mikils sóma. „Það er okkur sem hér störfum mikið fagnaðarefni að framkvæmdum sé lokið og við erum ákaflega spennt að opna hótelið upp á gátt með formlegum hætti og bjóða gestum og gangandi að njóta nýjunganna með okkur.“