Prjónar píkur í frístundum

Ýr Jóhannsdóttir hefur verið að prjóna frá blautu barnsbeini.
Ýr Jóhannsdóttir hefur verið að prjóna frá blautu barnsbeini. Ljósmynd Ýr Jóhannsdóttir

Listakonan Ýr Jóhannsdóttir hefur vakið mikla eftirtekt fyrir skrautlegar prjónaflíkur undanfarið, en hún hannar undir nafninu Ýrúrarí. Verkin hennar eru gamansöm og litrík, og augljóst er að hún er undir miklum áhrifum frá mannslíkamanum.

Hvenær fórst þú að prjóna og hvað er það við prjónaskap sem heillar þig?

„Ég lærði að prjóna þegar ég var níu ára og var nær óstöðvandi í prjónaskapnum. Mamma var einmitt að finna mynd ef mér þar sem ég sit og les Andrésblað og prjóna, en ég eyddi mjög mörgum eftirmiðdögum eftir skóla einmitt þannig á þeim aldri. Svo fór ég í langa gelgjupásu en byrjaði aftur að prjóna árið 2012 og hef verið mjög dugleg að því síðan.“

Ýr, sem nemur textílhönnun í myndlistaskóla Reykjavíkur, segist aðallega sækja innblástur úr umhverfi sínu en augljóst er að mannslíkaminn er henni einnig hugleikinn.

Hvernig þróaðist það að þú fórst að prjóna buddur?

„Ég var beðin um að taka þátt í samsýningunni Genitalia á Hönnunarmars í fyrra. Ég hafði búið til typpatrefil árið áður en vildi líka bæta við píkum. Svo var þetta líka spunnið út frá orðagríni þar sem píkur eru oft kallaðar buddur af einhverjum ástæðum. En allavega komu tilraunirnar bara svona vel út að ég hef reglulega prjónað skammta af buddum síðan, en nú eru þær til sölu í Gallerý gallera á Laugavegi.“

Þú hefur einmitt unnið með typpi, brjóst og aðra líkamshluta. Jafnframt hefur þú gert ælupeysur, hvað er það við mannslíkamann sem heillar þig?

„Það er greinilega eitthvað við hann sem heillar mig. Anatómía finnst mér mjög áhugaverð og bara öll líffræði. Það er bara eitthvað svo töfrandi og ótrúlegt við virkni líkamans og lífið sjálft“ bætir Ýr við. Aðspurð að því hvað sé skringilegasta eða skemmtilegasta verkefni sem hún hefur unnið að nefnir hún störf listahópsins CGFC.

„Ég myndi klárlega telja verkefnin sem ég hef verið að vinna að með vinum mínum úr CGFC vera með þeim allra skemmtilegustu. Þar blöndum við saman sköpunarkrafti okkar allra og höldum leiksýningar. Í fyrra gerðum við sjónrænt útvarpsleikrit í Noregi sem var ótrúlega gaman og svo höfum við núna tvisvar sýnt verkið okkar I Thought it Was Brilliant: A Fantastic Performance -Henrik Vibskov á Akureyri í janúar og í Kópavogi í síðustu viku. En við stefnum að nýju og spennandi verkefni næsta sumar“ segir Ýr sem nú er þó í óða önn að vinna að lokaverkefninu sínu í myndlistarskólanum.

 „Í vor útskrifast ég úr Myndlistarskóla Reykjavíkur af textílhönnunar-brautinni og er að klára að klístra saman portfólíóinu mínu til að senda út í skóla. Svo er ég að vona að ég finni smá tíma fyrir Ýrúrarí og meiri þróun með CGFC.“

Prjónuðu buddurnar litu dagsins ljós fyrir Hönnunarmars í fyrra.
Prjónuðu buddurnar litu dagsins ljós fyrir Hönnunarmars í fyrra. Ljósmynd Ýr Jóhannsdóttir
Mannslíkaminn er miðlægur í verkum Ýrúrarí. Hér má sjá kafloðna …
Mannslíkaminn er miðlægur í verkum Ýrúrarí. Hér má sjá kafloðna ullarsokka. Ljósmynd Ýr Jóhannsdóttir
Flíkurnar eru gamansamar. Hér sjást tvö brjóst flaksa í vindi, …
Flíkurnar eru gamansamar. Hér sjást tvö brjóst flaksa í vindi, á bakhlið peysunnar er síðan að finna óveðursský. Ljósmynd Ýr Jóhannsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda