„Hugmyndin var að hjálpa henni að muna margföldunartöfluna og svo líka svona upp á punt. Taflan er gerð úr límmiðum úr korki sem ég keypti í Tiger i Danmörku," segir Vigdís Sæunn Ingólfsdóttir sem brá á það ráð að setja margföldunartöfluna á stigann heima hjá sér fyrir 12 ára dóttur sína, Dagnýju Evu. „Ég þurfi að kaupa slatta af pökkum til að ná öllum tölunum.“
Vigdís kveðst búa í gömlu húsi. Hún segir stigann upp á efri hæðina vera orðinn lúinn þannig að tölustafirnir lífga bara upp á hann. „Við ætlum ekki að mála hann á næstunni og því ákvað ég að setja margföldunartöfluna á tröppurnar svo að dóttir mín geti æft sig á henni þegar hún fer upp í herbergið sitt.“
Vigdís, sem er búsett í Danmörku, hefur gaman af því að finna sniðugar lausnir og gera heimilið fínt. Til að mynda bjó hún til hundabæli fyrir hundinn Öskju úr gömlum laukkassa.