Húsnæði í London er með því dýrasta á heimsvísu, sér í lagi í hverfunum Mayfair, Belgravia, Kensington eða Chelsea. Fyrir marga auðkýfinga er þó ekki nóg að festa kaup á íbúð, eða húsi á svæðinu, heldur þarf að innrétta híbýlin eftir kúnstarinnar reglum.
Auðkýfingar leita því oft á náðir innanhússhönnuða, en einn slíkur er Brian Wade sem hefur varið síðustu fjórum árum í að hanna sjö hæða glæsihýsi fyrir rússneska fjölskyldu. Í húsinu er að finna sánu, níu baðherbergi og glerlyftu, en ein hæðin er ætluð fyrir þjónustufólk.
Átta ára dóttir eigendanna er með eigið baðherbergi, sem og fataherbergi. Móðir hennar er einnig með fataherbergi, sem samsvara heilli íbúð að stærð þar sem hún geymir fata- og töskusafnið sitt, sem og 600 pör af skóm.
Wade segir að virði húsgagnanna sem prýða heimilið sé 1,9 milljónir punda, eða rúmlega 333 milljónir íslenskra króna.
Fleiri myndir má sjá á vef Daily Mail.