Linnea Ahle, Gunnar Þór Gunnarsson og börnin þeirra þrjú hafa komið sér vel fyrir í notalegu og björtu raðhúsi í Fossvoginum. Fjölskyldan flutti inn í apríl og hefur gert ýmislegt til að lappa upp á heimkynnin síðan þá. Skötuhjúin eru bæði afar hrifin af byggingarstílnum sem einkennir hverfið og segja að skipulagið á húsinu henti fjölskyldunni vel.
„Við reyndum að gera sem mest af skítverkunum áður en við fluttum inn. Þannig skiptum við um gler í stóru gluggunum sem áttu ekki mikið eftir, stækkuðum hurðarop til að hleypa inn aukinni birtu, pússuðum og lökkuðum parket og sprautuðum loftið. Þar að auki lögðum við vínilparket frá Múrbúðinni í þrjú svefnherbergi, flotuðum rýmið fyrir innan garðhurðina, teppalögðum herbergi dóttur okkar og fleira,“ segir Linnea, aðspurð hvað þau hafi gert fyrir húsið síðan þau festu kaup á því.
„Það sem er heillandi við þessi hús er að þau bjóða upp á mikla möguleika. Það er hægt að taka niður veggi og breyta ansi miklu á nokkuð einfaldan hátt.“
Linnea segist vera hæstánægð með afraksturinn, þótt þau gætu líklega haldið áfram að dytta að húsinu út í það óendanlega.
„Við gætum sennilega haldið framkvæmdunum áfram endalaust. Við njótum þess bæði og erum líka orðin betri með aukinni reynslu. Næst á dagskrá er síðan að klára eldhúsið. Við fjarlægðum efri skápana til að létta á rýminu og settum hillur í staðinn. Það gerði mjög mikið, en núna ætlum við að sprauta innréttinguna. Lokaákvörðun um lit hefur ekki enn verið tekin, en fundarhöld um efnið eru sífellt í gangi,“ segir Linnea og kímir. „Á næsta ári vonumst við síðan til þess að geta tekið baðherbergið ærlega í gegn.“
Linnea segir að líklega sé best að lýsa stílnum á heimilinu sem skandinavískum og nútímalegum í bland, auk þess sem áhersla sé lögð á hvíta, drapplitaða og gráa tóna. „En ég er líka hrifin af Art Deco, sem brýst stundum fram,“ segir Linnea sem viðurkennir að hún sé meira drífandi þegar kemur að hönnun heimilisins.
„Gunnar hefur sinn smekk og er sem betur fer óhræddur að viðra sínar skoðanir, en hann treystir mínum ákvörðunum. Í það minnsta hingað til. Sem betur fer höfum við ekki rekist á óyfirstíganlega innréttingardeilu enn, og ég á satt að segja ekki von á því,“ bætir Linnea við.
Húsgögn og skrautmunir heimilisins eru úr ýmsum áttum og finnst skötuhjúunum gaman að blanda saman ódýrum og dýrum munum úr öllum áttum.
„Mörg af húsgögnunum okkar eru úr IKEA, en þetta er síðan kryddað með hönnunarvörum eða sérstökum munum úr öðrum verslunum. Það er mjög breytilegt hvaðan munirnir koma. Nýjustu húsgögnin okkar, svo dæmi sé tekið, eru annars vegar stóll sem ég fann í Góða hirðinum og hins vegar glerskápur sem við fengum frá Þýskalandi,“ segir Linnea, sem á erfitt með að gera upp við sig hvert eftirlætis herbergið í húsinu sé.
„Ég elska þetta allt saman, en akkúrat núna er það sennilega efri stofan. Hún er kósý, en samt rúmgóð, og við eyðum mörgum stundum þar. Eldhúsið mun samt koma sterkt inn þegar við ljúkum því alveg.“
Linnea er að lokum spurð hvernig fjölskyldunni líði á nýja heimilinu, og það stendur svo sannarlega ekki á svörum.
„Bara eins og heima. Sem er besta tilfinningin.“
Áhugasamir geta fylgst með Linneu á bloggsíðunni Trendnet, þar sem hún er dugleg að deila .