Stærsta áskorunin að kaupa minna

Valdís Eva heldur úti Instagram-reikningnum Umhverfisvænt heimili.
Valdís Eva heldur úti Instagram-reikningnum Umhverfisvænt heimili. Ljósmynd/Aðsend

Valdís Eva er 31 árs hjúkrunarfræðinemi sem stendur á bakvið instagramreikninginn Umhverfisvænt heimili. Hana langaði til að lifa umhverfisvænna lífi og setti því upp Instagram hálfpartinn til að hvetja sig áfram í því. Valdís man eftir sér 10 ára gamalli að flokka rusl en henni hefur alltaf verið kennt að nýta hlutina sína vel og neyta minna. 

Valdís býr með Daða Hafsteinssyni bruggara og nema í sjúkraþjálfun. Þau eiga tvö börn, Benedikt 10 ára og Alexöndru 8 ára, en þar að auki eiga þau hundinn Sölku og köttinn Ost. Hún segir stærstu áskorunina að kaupa minna og gleyma sér ekki.

Hvernig kviknaði hugmyndin að instagramsíðunni?

Ég hugsaði hvað væri að stoppa mig í að lifa umhverfisvænna lífi og hvað væri hægt að gera til að hvetja mig áfram. Fjárhagurinn leyfir ekki endilega að kaupa ýmsar umhverfisvænar vörur bara til þess að prufa. Þær eru dýrari og fást ekki hvar sem er. Oft veit fólk ekki hvaða vörur henta eða hvar er hægt að nálgast vörurnar. Ég ákvað að setja upp instagramsíðu hálfpartinn fyrir sjálfan mig. Hvað væri það sem ég myndi vilja sjá. Það vantaði að mínu mati fræðslu, hvatningu og að hafa þetta sýnilegt. 

Ég ætlaði að hafa blogg, facebooksíðu og fleira en það var bara of mikið. Ég vildi líka ekki hafa andlitið mitt sýnilegt eða segja hvað ég héti. Mér fannst það eitthvað óþægilegt fyrst. En svo ákvað ég bara að láta vaða, ég tapaði engu á því og vonandi yrði mitt blaður til þess að einhverjir breyttu einhverju til hins betra í sínu lífi. Þetta er svo flókið allt saman. Það er ótrúlega margt sem þarf að hugsa um og oft fallast mér alveg hendur. Þá er gott að fá ráð og góðar hugmyndir, til dæmis á Instagram.

Nestið þarf ekki allt að vera í plastboxum.
Nestið þarf ekki allt að vera í plastboxum. Ljósmynd/Aðsend

Hvert er markmiðið?

Markmiðið er að sýna frá því hversu auðvelt er að breyta litlum hlutum sem hafa samt svo mikil áhrif. Mig langar svo að hjálpa fólki að gera smá breytingar á sínu daglega lífi, gefa ráð og jafnvel setja upp mismunandi lista og markmið. Ég hef því miður ekki haft mikinn tíma til að sinna síðunni en ég bæti úr því eftir útskrift. 

Hverjar eru helstu breytingarnar sem þú hefur gert?

Ég man eftir mér 10 ára að flokka rusl heima og huga mikið að umhverfismálum. Mér var kennt að neyta minna, endurnýta og gera við hluti, fara vel með hlutina mína og minnka matarsóun. Pabbi, sem kom inn í líf mitt þegar ég var átta ára, reyndi hvað hann gat að kenna mér þessar venjur og hvað það þarf lítið í raun til að lifa góðu lífi. Það þarf að bjarga sér á fjöllum, sagði hann, með vasahníf einan að vopni. Það tókst að mörgu leyti að kenna mér að hugsa um umhverfið en ekki hvað neysluna varðar. Ég hef alltaf verið mjög dugleg að kaupa bara nýtt eða kaupa óþarfa. Bæði því ég taldi mig þurfa hitt og þetta og líka er einhver gerviánægja í að versla nýja hluti. Þar til núna. Það var helsta breytingin á mínu lífi og er alveg erfitt á köflum. Það er mikil vinna að breyta venjum sínum. Það má ekki taka það af fólki, hvorki gerist það af sjálfu sér né yfir nótt.

Valdís endurnýtir glerflöskur.
Valdís endurnýtir glerflöskur. Ljósmynd/Aðsend

Hvað hefur verið stærsta áskorunin?

Að kaupa minna. Og gleyma sér ekki. Það er svo auðvelt að lifa bara lífinu eins og maður hefur alltaf gert. Ég keypti hársápustykki og prufaði tvær tegundir. Þær hentuðu mér ekki og ég ætlaði alltaf að prufa fleiri týpur. Svo bara leið tíminn. Allt í einu er baðherbergið mitt, sem ég hafði lagt mikla vinnu í að gera eins plastlaust og ég gat, orðið fullt af brúsum á ný. Nú er sjampóbrúsinn að verða tómur og íslenska lífræna andlitskremið mitt í glerkrukkunni líka  þá þarf ég að vanda mig í næstu innkaupum. Gera sömu góðu kaup á andlitskremi en bæta mig í sápukaupum. Það getur verið gagnlegt að gera innkaupalista yfir þær vörur sem eru um það bil að klárast eins og sápu og sjampó, sem þú ætlar að prufa umhverfisvænni kost næst.

Við erum vön því að lifa í leiðslu, kaupa án þess að hugsa. Við mannfólkið erum ekkert nema vaninn svo þetta er gríðarleg áskorun.

Bland í poka þarf ekki að vera í plastpoka.
Bland í poka þarf ekki að vera í plastpoka. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða skref mælirðu með að fólk taki fyrst þegar það er að reyna að verða umhverfisvænna?

Það getur verið svo erfitt að ætla að gera allt rétt. Það er ekki hægt að breyta öllu, það er ekki raunhæft að ætla að lifa plastlausu lífi, vera vegan, kaupa lífrænt, leggja einkabílnum og svo framvegis. Það er enginn fullkominn.

Ég mæli með að fólk velji sér eitthvert eitt verkefni í einu. Byrji til dæmis á baðherberginu. Kaupi bambusbursta, prufi tannkremstöflur, sjampóstykki, fjölnota dömubindi og bómullarskífur. 

Og á meðan það er aðalverkefnið er hægt að setja sér markmið samhliða því, til dæmis að versla eins mikið innlent og hægt er. Það er frábært ráð. Það er algjörlega út í hött að kaupa erlent grænmeti til dæmis þegar við eigum þessar gæðavörur hér á landinu. Þó að íslenska grænmetið sé í plasti hefur það alltaf vinninginn.

Mikilvægasta ráðið er að hlaupa ekki til og kaupa allt umhverfisvænt á einu bretti. Það er ekkert vit í því að losa sig við öll plastboxin og brúsana og kaupa stálbox. Við þurfum að nýta það sem við eigum.

En þetta er ferli, tilraunastarfsemi sem tekur tíma. Við verðum að fá tækifæri til að gera þetta á okkar hraða og velja. Það hefur tekið mig marga, marga mánuði að finna út úr því hverju ég vil skipta út á baðherberginu til dæmis. Þetta krefst sjálfsskoðunar, við í eðli okkar eigum erfitt með að breyta venjum og skipta út því auðvelda yfir í það sem er aðeins erfiðara. Svo á sama tíma og við gefum okkur rými þarf maður að vera meðvitaður og ekki gleyma sér og gera ekkert.

Annars gæti ég skrifað og talað um þetta fram á nótt, þetta er ekkert einfalt og auðvelt  þá værum við öll lífrænir, fairtrade, hjólandi, plastlausir veganistar. Verð svo að taka það fram að ég er ekki í samstarfi við fyrirtæki, hef engra hagsmuna að gæta. Í allri þessari samfélagsmiðlaumræðu varðandi samstörf og auglýsingar vil ég taka það oftar fram en sjaldnar. 

View this post on Instagram

Nei sko sjáið hvað þetta er auðvelt! Stálrör Gaffall Skeið Veski úr Søstrene Grene. Með vaxáferð, þolir smá bleytu. Hvert barn á sitt veski og meira að segja mamman líka. Þegar ég kaupi litlar dósir af skyri eða jógúrt í nesti (sem ég geri sjaldan og er markvisst að minnka það!) þá tek ég plastlokið af með skeiðinni og skil eftir í búðinni. Ef jógúrtið er þunnt vilja þau gjarnan nota rörið frekar hvort sem er og þessi plastskeið er algjörlega óþarfi. Og lokið. Síðasti neysludagur er oft merktur á plastlokið en vitið þið, við höfum bara gott af því að sleppa því að spá í þeim stimpli - notum nefið og minnkum matarsóun! Ef varan er ónýt fer það ekkert milli mála. #lessplastic #environment #minnaplast #minnkumplastið #umhverfið #fjölnota #vakandi #noplastic #umhverfisvitund #minnasorp #holltoggott #holltoggottnesti #stáliðendistendalaust

A post shared by Umhverfisvænt heimili (@umhverfisvaentheimili) on Jun 27, 2018 at 1:56pm PDT

Hreinlætis- og snyrtivörur geta líka verð umhverfisvænar.
Hreinlætis- og snyrtivörur geta líka verð umhverfisvænar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda