Það er ýmislegt sem ber að varast þegar baðherbergi eru hönnuð frá grunni eða endurhönnuð. Baðherbergið er nefnilega ekki bara staðurinn þar sem við höfum okkur til heldur einnig staðurinn þar sem við viljum slaka á.
Wall Street Journal tók saman ráð frá nokkrum innanhússhönnuðum og arkitektum hvaða hönnun skal forðast og hvernig má koma í veg fyrir mistök. Fyrsta ráð Allison Babock, innanhússhönnuðar í New York, er að einbeita sér að litlum aukahlutum sem má auðveldlega skipta út til að breyta til.
Það helsta sem ráðgjafar WSJ nefndu var lýsingin, en versti óvinur baðherbergja er ljós beint fyrir opan spegilinn. Sarah Kennedy hönnuður segir að lýsingin á baðherberginu verði að þjóna fjölþættum tilgangi. Það er þó mikilvægt að hafa spegil með góðri lýsingu og betra að hafa hana allan hringinn eða til hliðanna. Elisabeth Post-Marner, arkitekt hjá Spacesmith, mælir með ledljósum sem hægt er að lækka birtustigið á.
Teppalögð baðherbergi eru sem betur fer ekki í tísku um þessar mundir og eflaust fáir sem myndi detta í hug að setja teppi inn á bað. Það var þó einu sinni í tísku. Allir þeir sem hafa einhvern tímann þrifið klósett eða baðherbergi vita að gólfið í kringum klósettið er yfirleitt ógeðslegt. Þar að auki draga teppi í sig raka og enda á því að lykta illa. Í staðinn er betra að vera með flísar á baðherberginu og hafa mottu hjá sturtunni eða baðinu. Mottur úr bambus eða örtrefjum eru betri kostur en bómullarmottur, sem þorna hægt.
Donna Mondi, hönnuður í Chigaco, vill ekki að það fyrsta sem fólk tekur eftir á baðherbergi séu sjampóbrúsar og flöskur af hárnæringu. „Ég vil að fólk sjái hönnunina, efnin og lýsinguna, ekki hillu í apóteki,“ sagði Mondi. Marea Clark, hönnuður í San Francisco, sagði það sama: „Ég hata þegar það er það fyrsta sem þú tekur eftir.“ Til að fela allar vörurnar sem þú notar er sniðugt að hafa innbyggða hillu í horni þar sem vörurnar sjást ekki. Clark bætir einnig við að þeir sem raki fótleggi sína kunni að meta þegar sú hilla sé frekar lágt niðri svo það sé hægt að tylla fætinum þar við rakstur.
Hönnuðurinn Tracey Morris segist hissa á því hversu oft fólk klikkar á því að koma fyrir handklæðastöng eða krók á góðum stað. „Sama hversu fallegt baðherbergið er, þá er ekkert verra en að þurfa að labba yfir allt gólfið til að ná í handklæði eftir sturtu,“ sagði Morris.
„Það er mikilvægt að staldra við áður en þú pantar terrazzoflísar og fallega málningu og endar með skelfilega óreiðu,“ sagði Rita Chraibi, hönnuður hjá International Designers. Litirnir smjörgulur og ólífugrænn eiga ekki heima á baðherberginu. „Þeir litir eiga það til að láta húðina líta skelfilega út,“ sagði Liles Dunnigan hönnuður. Í stað þess er betra að halda sig við mjúka jarðarliti sem skapa betri bakgrunn. „Þú vilt ekki líta út fyrir að vera með ælupest þegar þú ert að græja þig,“ sagði Dunnigan.