Alin upp við að taka ábyrgð á eigin hamingju

Kristín Gunnlaugs listakona
Kristín Gunnlaugs listakona mbl.is/Arnþór Birkisson

Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarmaður býr á Seltjarnarnesi í húsi með útsýni yfir sjóinn. Húsið sem hún býr í er listaverk í þróun en það eru líka orðin sem hún notar til að útskýra hlutina eins og hún sér þá. 

Húsið hennar Kristínar Gunnlaugsdóttur var teiknað af Jósef Reynis arkitekt og er á tveimur hæðum. Hún býr með börnum sínum þeim Melkorku Gunborgu Briansdóttur og Killian G.E. Brianssyni. Hubert Sandhofer maki Kristínar er vínbóndi búsettur í Austurríki og kemur reglulega til Íslands.

Inni á heimilinu er mikið af listaverkum. Bæði eftir hana og aðra listamenn. Hún hefur ríka þörf fyrir að breyta reglulega til og stendur í stöðugum umbótum heima hjá sér.

„Ég er hrifin af póstmódernískum byggingarstíl. Hús afa og ömmu á Akureyri var teiknað af Sigvalda Thordarsyni og var draumahúsið mitt. Þetta hús á Unnarbrautinni hreif mig strax þegar ég kom inn í það í fyrsta sinn og minnti mig á hús afa og ömmu. Það sem heillaði mig voru stórir gluggar með útsýni yfir sjó, aflöng stofa með mikilli lofthæð og panel í lofti og vegg. Svo var mikill kostar að það var arinn sem hefur reynst hjartað í húsinu.“

Teikningar eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur eru víða á verkstæðinu hennar.
Teikningar eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur eru víða á verkstæðinu hennar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Prófar sig áfram með húsið á kvöldin

Kristín gengur í öll verk sjálf og hikar ekki við að prófa sig áfram og jafnvel mistakast. Í húsinu er engin geymsla sem mörgum þætti ókostur en er hluti af lífsviðhorfi Kristínar. Eina geymsluplássið er einföld skáparöð í þvottahúsinu, en annars hefur Kristín lagt áherslu á að safna ekki dóti heldur markvisst nota það sem hún á. Svefnherbergin, vinnustofan og fjölnota rými, stundum nýtt sem listgallerí, eru á jarðhæð. Síðan er gengið upp á efri hæð þar sem er setustofa með sjónvarpi, stór og opin borðstofa, flygill á upphækkuðum palli og eldhús.

„Ég vel að hafa alla veggi, ofna og ekki síst glugga í sama bláa litnum. Ég legg mikla áherslu á að útsýnið njóti sín og að stofan virki stór og opin og vil þess vegna ekki hafa gardínur.“

Ég hef aldrei séð þennan bláa lit áður. Hvaðan kemur hann?

„Ég á fallegt indverskt silkisjal sem ég fór með til Garðars Erlingssonar í Litalandi. Hann er fær að greina liti og fann rétta bláa tóninn fyrir mig sem fæst núna hjá honum undir nafninu Kristín. Ég fór bara af stað með pensilinn og rúlluna og tók einn vegg í einu án þess að setja heimilið á hvolf. Það skiptir miklu máli, bæði heimilisins og mín vegna, að gera breytingar í áföngum því ég hef ekki mikinn tíma aflögu. Svo vill það gerast að ég mála hitt og þetta sem á vegi mínum verður í sama lit. Eins og Maríustyttuna á arninum og eitt borð í stofunni,“ segir hún.

Vinnustofa Kristínar er eintaklega falleg og opin. Hún er staðsett …
Vinnustofa Kristínar er eintaklega falleg og opin. Hún er staðsett á neðri hæð hússins á Seltjarnarnesi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Undir áhrifum Vivienne Westwood

Hvaðan færðu drifkraftinn þegar kemur að endurbótum á húsinu?

„Ég fyllist orku við að skapa fallegt heimili. Það gerir mig sterkari þegar heimilið er í góðu lagi og eftir mínu höfði. Það verður að segjast eins og er. Ég hef verið svona frá því að ég fór að breyta herberginu mínu sem táningur.

Í mars horfði ég á heimildarþáttinn Westwood: Pönkari, átrúnaðargoð og aðgerðasinni um Vivienne Westwood á RÚV sem kveikti rækilega í mér. Ég dáðist að dirfsku hennar og úthaldi, sjálfstrausti og sérstæðri fegurðartilfinningu. Þátturinn veitti mér mikinn innblástur bæði á vinnustofunni og á heimilinu.

Ég ákvað að fylgja eftir hugmynd sem ég fékk fyrir ári og mála parketið dökkbrúnt. Hugmyndina fékk ég af gömlu og útslitnu viðargólfi á veitingastað í Vín.

Eikarparketið mitt, olíuborið, var orðið slitið, blettótt og gamalt. Það mátti því gera tilraunir á því og mistakast. Ég legg mikla áherslu á að gefa gömlum hlutum nýtt líf án þess að þurfa alltaf að skipta þeim út. Ég vildi athuga hvort ég gæti ekki aðlagað gólfið að mínum smekk og byrjaði á því að þvo það með heitu vatni. Síðan sat ég flötum beinum á gólfinu með svamp sem ég dýfði til skiptis í svartan og brúnan bæs og málaði gólfið með - hægt og rólega.

Útkoman var rosaleg en það var gaman að gera þetta. Eftir tvær umferðir af bæs var gólfið orðið mjög dökkt. Í raun allt of dökkt. Þá var það pússningavélin sem kom til bjargar. Eftir fyrstu strokurnar með sandpappírnum sá ég að draumurinn var að rætast. Grunnlitur parketsins kom í gegn og ég gat teiknað ímyndaðar gönguleiðir og slit í gólfið. Ég var í skýjunum og verkið flaug áfram með dyggri aðstoð dóttur minnar og kærasta hennar. Í leiðinni voru tvö borð í stofunni líka máluð svört og brúnirnar yfirfarnar með sandpappír. Það tók enga stund. Svo fór ég í Góða hirðinn og keypti ósamstæða lampaskerma og fætur sem ég málaði og tengdi við stofuna. Mér fannst ég ótrúlega heppin þar. Þetta kostaði nánast ekki neitt. Í heildina kostuðu breytingarnar á gólfinu aðeins tólf þúsund krónur og nú er ég með nýja stofu.“

Opin, falleg og skemmtileg vinnustofu sem leyfir að opna út …
Opin, falleg og skemmtileg vinnustofu sem leyfir að opna út í garð á góðum dögum. mbl.is/Arnþór Birkisson
Kristín hefur verið að breyta teppinu á stiganum og leyfir …
Kristín hefur verið að breyta teppinu á stiganum og leyfir málningunni að skvettast upp á vegg. Í raun er bara karakter í því. mbl.is/Arnþór Birkisson

Af hverju kveikti Vivienne Westwood svona í þér?

„Hún er bara þessi kona sem gerir alls konar. Það er mikill eldur í henni og hugrekki. Hún er villt og fáguð. Ég mótaðist mikið á pönkárunum og hún er upphafsmaður þeirrar tísku. Mótlætið sló hana ekki út af laginu. Hún var líka tveggja barna einstæð móðir sem gerir hlutina á frumlegan hátt með kvenlægu innsæi. Hún getur verið svo galin í samsetningum en samt passar allt einhvern veginn hjá henni.“

Fersk blóm í vasa er lúxus.
Fersk blóm í vasa er lúxus. mbl.is/Kristinn Magnússon

Konur mega vera erfiðar

Hvað getur þú sagt mér um saumuðu textaverkin sem þú hefur verið að vinna að?

„Íslendingar sem bókmenntaþjóð eiga auðvelt með að nálgast textaverk. Þar liggur okkar menningararfur hvað sterkastur. Ég finn það á því hvernig fólk nálgast textaverkin mín að það býr meira sjálfstraust og þekking á dýpri merkingu og möguleikum orðanna heldur en þegar myndmálið er án texta. Ég hef gaman af hversdagslegum setningum sem geta þýtt margt. Brot af samtali sem ég heyri getur haft margræða merkingu og málvillur sagðar í einlægni sýna heillandi varnarleysi. Setningar eins og „ég er að deyja“ breytast með sífelldri endurtekningu. Orðin verða þyngri og merking þeirra magnast. „Nú ertu að verða erfið“ er setning sem hefur verið sögð við mig eins og svo margar aðrar konur og stelpur. Hún er stuðandi af því hún er niðrandi og neikvætt gildishlaðin en ef við náum að taka hana lengra getum við nýtt okkur hana í hag. Í mörgum tilfellum þykja konur erfiðar þegar þær þora að standa með sér. Setningin „þú ert svo dugleg“ hefur einnig margræða merkingu. Hún getur verið lamandi skipun um endalausan dugnað sem við upplifum öll sem kvöð en svo er hún vel meint hrós og viðurkenning.“

Húsið er á köflum mjög stílhreint og skemmtilegt.
Húsið er á köflum mjög stílhreint og skemmtilegt. Kristinn Magnússon

Hvernig sérðu þessar breytingar á stöðu kvenna?

„Það eru forréttindi að fæðast á Íslandi hvað varðar stöðu kynjanna. Víða í vestrænu samfélagi er jafnt og þétt unnið að jafnréttismálum en ég held við gerum okkur ekki grein fyrir hversu mikilla forréttinda við njótum og að við getum glatað því sem hefur áunnist á örstuttum tíma. Mörg verka minna tala inn í jafnréttisbaráttuna sem mér ber ljúf skylda til. Ég bjó á Ítalíu og dvel mikið í Mið-Evrópu og sé þar hversu langt er í land. Mentun kvenna og fjárhagslegt sjálfstæði eru grundvallaratriði, hvar sem er í heiminum.“

Af hverju skiptir sjálfstæði þig svona miklu máli?

„Ég held þetta liggi í skapgerðinni. Svo er ég alin upp innan um sterkar kven- en líka karlfyrirmyndir.

Foreldrum mínum þótti sjálfsagt að ég væri sjálfstæð og að ég réði öllu um mitt eigið líf. Það var einhvern veginn aldrei spurning. Ég var sautján ára þegar ég ákvað að leggja fyrir mig myndlist. Ég tilkynnti það bara yfir hádegismatnum og það var ekkert rætt frekar.

Svarið var bara „já góða mín, gerðu það.“

Foreldrar mínir voru í góðu hjónabandi og ég skynjaði aldei valdabaráttu heldur djúpa virðingu og vináttu þeirra á milli.“

Fyrir hvað var þér hrósað í æsku?

„Ég fékk hrós fyrir að vera góð. Foreldrar mínir bjuggu bæði við heilsubrest og það mótaði mig mikið. Ég komst ung að því að hamingjan fólst í því að búa til gæðastundir og njóta þess að vera saman. Það er ekki sjálfsagt mál að vera hraustur og fá að vera innan um fólkið sitt.

Foreldrar mínir voru glatt fólk og skapgott að eðlisfari og lögðu mér skýra lífsreglu sem fólst í því að ég ein bæri ábyrgð á hamingju minni. Ég gæti ekki stjórnað því sem gerðist en ég gæti stýrt viðbrögðum mínum. Þau bjuggu sjálf yfir sterkri trúarsannfæringu og kenndu mér að treysta guði og nota bænina.

Grunnur sjálfstæðisins liggur í þessu trausti að maðurinn stendur einn en þó ekki. Ég vona að ég miðli þessu til minna eigin barna. Mér finnst sjálfsagt að þau velji sína framtíð sjálf og fylgi eigin sannfæringu.“

Þegar þú teiknar mannslíkamann, ertu þá með lifandi módel?

„Já alltaf. Ég teikna mikið í Myndlistaskóla Reykjavíkur þar sem módeltímar bjóðast. Fyrir mér er mikilvægt að hafa lifandi módel, tíminn sem maður hefur til að teikna skiptir máli og nálægðin við lifandi manneskju hefur áhrif. Ég hef teiknað módel frá unglingsárum þegar ég var í Myndlistaskólanum á Akureyri og teikningin verður samgróin manni eins og andardráttur. Ég skissa mikið og leik mér. Þær teikningar eru ómeðvitaðri og ég nota þær mikið í saumaverkunum. Að teikna fólk er að nálgast mennskuna í lífinu, allar tilfinningar og reynsla sem maðurinn býr yfir liggja í formi og línu líkamans og er jafn erfitt að nálgast og það er heillandi. Það er hægt að segja allt um manneskjuna í nokkrum línum eins og í ljóði.“

Það er mikið um listaverk á veggjum og falleg antíkhúsgögn …
Það er mikið um listaverk á veggjum og falleg antíkhúsgögn í stofunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað ertu að fást við núna?

„Ég vinn við nokkur verk í einu gjarnan í mismunandi tækni eins og að sauma á striga, blönduð tækni, teikna, mála og fleira. Það er ákveðin hvíld í að geta skipt um verk til að vinna í og oft fara verkin að tengjast sín á milli. Að vinna í ákveðinni tækni kallar á einbeitingu sem leiðir af sér annað verk, sem svo aftur leiðir að því næsta. Það er vinnan sjálf og forvitnin sem leiðir af sér fleiri verk. Þessi öldufaldur sem skapast og felst í vinnunni sjálfri er orkuspretta nýrra hugmynda og vinnu þar sem leiðin er takmarkið og lokaniðurstaða er ekki til.“

Liturinn Kristín fæst í Litarlandi. Hann er gerður eftir indversku …
Liturinn Kristín fæst í Litarlandi. Hann er gerður eftir indversku sjali sem listakonan fann í fórum sínum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Það setur menningarlegan svip á heimilið að vera með hljóðfæri.
Það setur menningarlegan svip á heimilið að vera með hljóðfæri. mbl.is/Kristinn Magnússon
Heimiliskisan lætur fara vel um sig í stofunni.
Heimiliskisan lætur fara vel um sig í stofunni. mbl.is/Kristinn Magnússon
Fallegt stell eftir leirlistakonuna Margréti Jónsdóttur sem er vinkona Kristínar.
Fallegt stell eftir leirlistakonuna Margréti Jónsdóttur sem er vinkona Kristínar. mbl.is/Kristinn Magnússon
Eldhúskrókurinn er nettur og skemmtilegur.
Eldhúskrókurinn er nettur og skemmtilegur. mbl.is/Kristinn Magnússon
Það er einungis borðað úr leirlist eftir Margréti Jónsdóttur.
Það er einungis borðað úr leirlist eftir Margréti Jónsdóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon
Skáparnir standa oft opnir enda bara fallegir að sjá jafnt …
Skáparnir standa oft opnir enda bara fallegir að sjá jafnt að innan sem utan. Þeir eru staðsettir í eldhúsinu á annarri hæð hússins. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda