Ný lína af stólum og sófum sem ber heitið FAT hefur nú litið dagsins ljós, en línan er hönnuð af hönnunarstjörnunni Tom Dixon. Í línunni eru fáanlegir þriggja og tveggja sæta sófar, borðstofustóll, barstóll, legubekkur og hægindastóll.
Þægindi eru í forgrunni hönnunarinnar, en stólarnir eru hannaðir til að faðma líkamann og gleðja um leið augað. Nafn línunnar hefur vakið þó nokkra athygli, en Dixon segir nafnið vitna í þægindi stólanna.
„Mig hefur lengi langað að endurskilgreina orðið feitur og gera það jákvætt aftur, og það á sérstaklega vel við þegar rætt er um áklæði húsgagna þar sem þú vilt hafa þau sem þægilegust,“ segir Dixon.
Þykkt áklæði og sveigð bök gefa stólunum fallegt útlit, en stólarnir eru handunnir og bólstaðir af reyndum iðnaðarmönnum.