Fagurkerinn og bloggarinn Sara Sjöfn Grettisdóttir býr í fallegu húsi í Vestmannaeyjum ásamt sambýlismanni sínum, Bergi Páli Gylfasyni, og þriggja ára syni þeirra, Atla Degi. Sara kveðst njóta þess að skreyta fyrir jólin og ómissandi þykir henni að prýða heimilið með greni og fá þannig jólalyktina á heimilið.
„Ætli ég fari ekki milliveginn. Ég set ljós í hvern glugga, bæti við kertin og nota mikið greni, svo fær fallegt jólaskraut sem okkur hefur hlotnast í gegnum árin sinn stað,“ segir Sara, spurð hvort hún skreyti mikið í kringum jólin. „Jólatréð er að mínu mati fallegasta jólaskrautið og vil ég hafa það alvöru, stórt og fallegt,“ útskýrir Sara sem hefur sankað að sér alls kyns jólaskrauti úr hinum ýmsu verslunum í gegnum tíðina. „Það er engin ein búð í uppáhaldi frekar en önnur þegar kemur að jólaskrauti. En ég fer alltaf eina ferð í IKEA og Söstrene Grene fyrir jólin, þar er hægt að fá margt sniðugt fyrir lítinn pening. Svo á tengdamóðir mín fallega búð sem heitir Póley og jólaskrautið sem hún fær er mjög fallegt og það er erfitt að standast.“ En hvaða jólaskraut er í uppáhaldi? „Við erfðum jólakaffistell fyrir tveimur árum frá tengdaömmu minni sem mér finnst dásamlegt og held mikið upp á. Einnig hefur sonur okkar föndrað jólaskraut sem fær að sjálfsögðu sinn stað.“
Mikilvægast að verja gæðatíma saman
Eins og áður sagði eiga þau Sara og Bergur þriggja ára son saman, svo er annar strákur á leiðinni og settur dagur er 1. desember. Sara og Bergur halda í gamlar jólahefðir sem þau ólust upp við, ásamt því að búa til nýjar. „Já, núna, þegar ég er sjálf komin með barn, eru að myndast nýjar hefðir en svo eru margar gamlar hefðir sem maður vill kynna fyrir barninu sínu. En ég held að það skipti mestu máli að leggja áherslu á samveru, sama í hvaða formi hún er. Hvort sem fólk bakar saman, spjallar yfir heitu kakói, spilar, kúrir uppi í sófa yfir jólamynd, velur jólatré í sameiningu og/eða skreytir það saman,“ útskýrir Sara sem reynir eftir bestu getu að forðast allt jólastress. „Maður á að njóta þessa tíma, hann getur verið svo dásamlegur.“
Hvað varðar jólahefðir, nýjar og gamlar, ólst Sara upp við að borða hamborgarhrygg á aðfangadag. „Hamborgarhrygg og allt sem honum tilheyrir. Við Bergur erum sem betur fer bæði alin upp við þá hefð þannig að í fyrra, þegar við héldum okkar fyrstu jól sjálf, var ekkert vesen að ákveða jólamatinn,“ segir Sara sem er dugleg í eldhúsinu og þykir gaman að elda og baka. „Það eru alveg 3-4 sortir af smákökum bakaðar fyrir jólin. En ég leyfi mömmu að sjá um lagtertuna og fæ svo að hjálpa henni með sörubaksturinn, gegn því að fá nokkra poka með heim,“ segir Sara að lokum.