Skreytir ekki fyrr en á Þorláksmessu

Sigríður Hagalín Björnsdóttir ásamt dóttur sinni.
Sigríður Hagalín Björnsdóttir ásamt dóttur sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Hagalín Björnsdóttir fréttamaður var að senda frá sér sína fyrstu skáldsögu. Hún er jólafasisti að eigin sögn og segir að allt þurfi alltaf að vera nákvæmlega eins, ár eftir ár. Eiginmaður hennar, Guðmundur Örn Guðmundsson, hefur lagt sitt af mörkum til að jólafasistinn eigi gleðileg jól. 

Myrkrið, ljósin og öll fallega tónlistin kemur mér í jólaskap,“ segir Sigríður og bætir við: „Svo þarf ég að hlusta að minnsta kosti einu sinni á skelfilega jólaplötu frá 8. áratugnum með Silfurkórnum til að komast í almennilegt jólaskap. Það er kannski bara býsna vel sloppið – ég veit um fólk sem þarf að heyra Strumpajól til að jólin geti hafið innreið sína,“ segir hún og hlær.

Hverjar eru þínar jólahefðir?

„Ég er jólafasisti, að sögn kunnugra, og breyti engu í mínu jólahaldi nema að vel athuguðu máli. Ég baka með mömmu og systur hennar, nákvæmlega sömu sortir og amma bakaði. Það tekur klukkutíma af vísindalegri nákvæmni að setja seríuna á jólatréð, og á aðfangadagskvöld er ein gjöf opnuð í einu á meðan allir hinir fylgjast andaktugir með.“

Hvenær byrjar þú að undirbúa jólin?

„Helst ekki fyrr en í desember. Og jólafasistinn skreytir ekki fyrr en á Þorláksmessu, svo allt sé glansandi nýtt og fínt á aðfangadagskvöld.“

Borðið þið fjölskyldan alltaf það sama á jólunum eða eruð þið dugleg að prófa eitthvað nýtt?

„Ég ólst upp við rjúpur í jólamatinn, en þegar við Gummi bjuggum í Danmörku höfðum við aligæs á jólunum. Við reyndum að halda því áfram eftir að við fluttum aftur til Íslands en gáfumst upp eftir nokkur ár. Það eru til margar ævintýralegar sögur af tilraunum okkar til að verða okkur úti um jólagæs hér heima. Einu sinni komumst við að því á Þorláksmessu að gæsinni okkar hefði verið fargað af ótta við fuglaflensu, og öðru sinni ókum við langt út í sveit í kafaldsbyl rétt fyrir jól til að sækja gæsina, en fengum uppstoppaðan lunda í staðinn, fyrir einhvern furðulegan misskilning. Gæsarævintýrin eru mjög skemmtileg í minningunni, en þetta var á endanum of ófyrirsjáanlegt og stressandi svona rétt fyrir jólin.“

Hvað er í matinn á aðfangadag?

„Gummi grefur lax, heimsins besta graflax, og foreldrar mínir leggja til sínar ómissandi sveppatartalettur, sem hafa fylgt fjölskyldunni svo lengi sem elstu menn muna. Aðalrétturinn er sænsk jólaskinka, sem við pöntum frá vinum okkar í Kjöthöllinni. Skinkan hefur reynst mun áreiðanlegri en gæsirnar ævintýralegu, og við höfum fjöll af alls konar ljúffengu meðlæti með henni. Desertinn hefur verið svolítið á reiki á undanförnum árum, en það er útlit fyrir að samkomulag sé að nást um súkkulaðimús.“

Hvað finnst þér best við jólin?

„Tónlistin, maturinn, bækurnar, og að dúllast með fjölskyldunni. Þetta er líka einhvern veginn eini tíminn sem maður getur leyft sér að sitja yfir púsluspili fram á nótt.“

Nú ertu með fullt hús af börnum – hvað gerir þú til þess að börnin njóti sín sem best á aðventunni?

„Stórfjölskyldan bakar saman piparkökur, sem er mjög gaman, og við höfum verið að reyna að endurvekja þá hefð að skera laufabrauð. Svo drögum við dætur okkar í heljarmikinn jólagjafaleiðangur niður í bæ, og þá er fastur passi að fara á Mokka í kakó og vöfflur. Mér finnst alltaf mikil stemning að fara á skauta um jólin, en áhugi stelpnanna á því hefur eitthvað verið að dofna. Nú bindum við vonir við að snjórinn verði snemma á ferðinni, svo við komumst á skíði um jólin.“

Hvað er ómissandi um jólin?

„Jólafasistanum finnst þetta allt ómissandi. En auðvitað er ljósið í myrkrinu og samveran með fólkinu mínu það eina sem er raunverulega ómissandi um jólin.“

Áttu einhverja jólaminningu sem þú vilt deila með lesendum?

„Ég á mér bernskuminningu frá Þorláksmessu, þegar ég var smástýri. Það var komið langt fram á kvöld og alger óreiða ríkti á heimilinu. Mamma var á fullu að skúra og pabbi að pakka inn gjöfum, og kassar af jólaskrauti gnæfðu yfir mig í stofunni. Ég man að ég hugsaði áður en ég fór að sofa: „Þeim tekst þetta aldrei. Það koma bara engin jól í ár.“ Þegar ég vaknaði morguninn eftir var allt orðið hreint og fínt og skrautið komið upp, gjafirnar í snyrtilegum stafla undir jólatrénu og mér fannst foreldrar mínir vera ofurhetjur eða töframenn að hafa tekist þetta. Og jólin fyrir mér eru alltaf þetta kraftaverk, að mitt í öllum asanum og stressinu og myrkrinu skuli fólki takast að halda svona fallega og heilaga hátíð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda