Stúfur „léttasti sterki bjórinn“

„Þetta er væntanlega léttasti bjór sem hefur verið framleiddur á Íslandi sem sterkur bjór; léttasti sterki bjórinn,“ segir Óli Rúnar Jónsson, markaðsstjóri Ölgerðarinnar, um jólabjór Borgar þetta árið en hulunni var svipt af honum á Facebook-síðu Borgar í dag. Bjórinn sem nefnist Stúfur er 2,26%.

Þrátt fyrir lágt áfengisinnihald verður Stúfur þó ekki seldur í matvöruverslunum. „Nei, hann verður einmitt ekki seldur í matvöruverslunum. Ef hann væri 2,25% þá mætti hann fara í matvöruverslanir en hann er örlítið yfir því má hvorki auglýsa hann eða dreifa annað en í Vínbúðirnar, veitingastaði og skemmtistaði.“

Spurður hvers vegna ekki hafi verið ákveðið að hafa Stúf í 2,25% og selja í matvöruverslunum, úr því áfengismagnið er hvort eð er svo lágt segir Óli Rúnar: „Stúfur er með mikilmennskubrjálæði. Það hefði verið honum ólíkt að fara niður í 2,25%.“

En þar sem áfengismagnið er svo lágt í bjórnum verður hann töluvert ódýrari en þeir jólabjórar sem á undan hafa komið frá Borg en áfengismagnið í þeim hefur einmitt verið mjög hátt.

Fleira er þó athyglisvert við Stúf, nefnilega innihaldslýsingin. Hún er eftirfarandi: Vatn, maltað bygg, taðreykt malt, einiviður, hafrar, piparkökur (hveiti, sykur, mjólk, smjör, síróp, kanill, negull, engifer, hvítur pipar), humlar, kakónibbur, ölger, lakkrís, einiber.

„Þarna má finna taðreykt malt,“ segir Óli Rúnar. „Ég held að það hafi aldrei komið bjór á markað í heiminum sem hefur verið taðreyktur. Og það er eiginlega bara allt í honum. Reinheitsgebot hreinleikalögin eru á þá leið að aðeins fjögur hráefni eru heimiluð í bjór, það er humlar, malt ger og vatn. Það er því óhætt að segja að þessi falli ekki undir hreinleikalögin.“

Þetta er þó ekki eini jólabjórinn frá Borg í ár. Í boði verður viðhafnarútgáfa af öðrum bjór. Óli Rúnar vill hins vegar ekki gefa meira upp um hann.

Jólabjórinn kemur í Vínbúðirnar 15. nóvember næstkomandi en nokkur fyrr á veitingastaði og skemmtistaði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert