Er það ekki algert metnaðarleysi að kaupa tilbúna kalkúnafyllingu þegar það tekur um það bil 15 mínútur að gera sína eigin frá grunni? Hér kemur uppskrift að bestu kalkúnafyllingu í alheiminum en hana geri ég alltaf þegar vel liggur á mér.
Væn smjörklípa
1 stór laukur, saxaður
200 g ferskir sveppir
250 g gulrætur
50 g þurrkuð epli
50 g þurrkaðar apríkósur
6 sneiðar af grófu brauði (þessu má sleppa)
1 dl rjómi
1 dl vatn
2 tsk grænmetiskraftur
½ tsk salvía, má vera meira
½ tsk svartur pipar
1 tsk oregano
Aðferð:
Leggið eplin í bleyti í kalt vatn ásamt apríkósum. Það má líka nota ferskt epli og ferskar apríkósur - það er alls ekki verra.
Setjið smjörið í pott og kveikið undir. Skerið laukinn og sveppina frekar smátt og setjið út í smjörið. Látið þetta krauma í fimm til tíu mínútur. Hreinsið gulrætur og rífið þær niður frekar gróft og bætið út í. Þá eru þurrkuðu eplin og apríkósurnar teknar úr vatninu og skornar smátt og bætt út í. Nú er kryddið sett út í. Þá er brauðið skorið í teninga og bætt út í. Hrærið vel saman.
Það er ekkert verra að búa fyllinguna til daginn áður en kalkúnninn er eldaður. Þá tekur hún sig ennþá betur.