Ljúffeng kjúklingaspjót með ananas, papriku og einfaldri ananasraitu

Grillspjót að hætti Ragnars Freys Ingvarssonar.
Grillspjót að hætti Ragnars Freys Ingvarssonar. Ljósmynd/Ragnar Freyr

Læknirinn í eldhúsinu, Ragnar Freyr Ingvarsson, útbjó girnileg grillspjót sem enginn grillari má láta fram hjá sér fara. 

Það er svo merkilegt, að þegar maður sökkvir sér niður í eitthvert viðfangsefni er eins og fjöldi dyra opnist fyrir manni. Ég hef síðastliðinn áratug verið fremur duglegur við að grilla – bara svona eins og margir. En þegar við ákváðum að gera þessa grillbók mína sökkti ég mér enn þá meira í lestur og tilraunir með grillið. Og það er ljóst að það er hægt að grilla hvað sem er. Meira að segja ávexti. 

Uppskrift fyrir sex  

1,2 kg kjúklingabringur

5/6 hluti af ferskum ananas (afgangurinn fer í sósuna)

3 paprikur

1 rauður chili

4 msk. jómfrúarolía

salt og pipar

1/2 poki blandað salat

250 g kirsuberjatómatar

 

Fyrir ananassósu

 

300 ml jógúrt

1/6 hluti af ananasinum (það sem eftir er af honum)

1 msk. hlynsíróp

1/2 rauður chili

2 msk. jómfrúarolía

Handfylli ferskur kóríander

Salt og pipar

Það er sennilega rétt að byrja á því að gera sósuna. Hún þarf klukkustund til að öll bragðefnin nái að taka sig almennilega. Og hún er eins einföld og hægt er að hugsa sér. Fyrirmyndin er indverska sósan raita sem oftast er gerð með hvítlauk og gúrku, en það er auðvitað hægt að setja hvað sem er í sósuna. Eins og til dæmis því sem ég sting upp á í dag – ananas.

Setjið jógúrtina skál, skerið ananasinn niður smátt og hrærið saman við ásamt smátt skornum chili. Hræið jómfrúarolíunni saman við og saltið og piprið eftir smekk. Látið standa í kæli á meðan þið útbúið og grillið kjúklingaspjótin. Skreytið svo með ferskum kóríander áður en sósan er borin á borð (eins má hakka smá kóríander saman við sósuna en á mínu heimili eru deildar meiningar um kóríander þannig að því er bætt við eftir þörfum hvers og eins).

Skerið kjúklingabringurnar í bita, sem og ananasinn ásamt paprikunum, og þræðið upp á grillspjót (séu viðarspjót notuð þarf að bleyta þau í klukkustund áður svo ekki kvikni í þeim við eldamennskuna). Penslið með jómfrúarolíu, sáldrið smátt skornum chilli yfir og saltið og piprið. Svona yfirlitsmyndir eru ekkert annað en listaverk.

Hellið salatinu á trébretti (eða disk), skerið tómatana í tvennt og dreifið yfir. Sáldrið smá jómfrúarolíu yfir og saltið og piprið. 

Leggið svo kjúklingaspjótin á salatið og berið á borð. 

HÉR er hægt að lesa bloggið hans Ragnars Freys. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert