Hin kristnu boðorð eru tíu. Þau eru listi yfir trúarlegar og siðfræðilegar reglur sem samkvæmt biblíu kristinna manna og Torah Gyðinga, voru opinberuð af Guði fyrir Móses á fjallinu Sínaí. Í þeim birtast grundvallar gildi kristinna manna. Þið munið væntanlega eftir að hafa lært þau í fermingarundirbúninginum. Hið fyrsta er: Þú skalt ekki aðra Guði hafa og hið síðasta; þú skalt ekki grinast konu náunga þíns o.s.frv.
Trúarlegar og siðfræðilegar reglur eru grunnurinn sem við byggjum samfélag okkar, stofnanir þess og samskipti á.
Í ljósi þess varð mér hugsað til þess að allir ættu að hafa sín eigin boðorð sem ættu að stýra daglegu lífi okkar á. Ég setti upp eftirfarandi boðorð sem eru byggð á hamingju- og jákvæðni rannsóknum og eigin reynslu.
Hér kemur fyrsta uppkastið:
1. Þú skalt ekki taka lífinu svona alvarlega, þú lifir það hvort sem ekki af.
Þetta þýðir að daglega fara yfir óþarfa áhyggjur og hreinsa burt.
2. Þú skalt elska lífið og fólk eins og það er.
Ó, Ó hvað það er oft auðvelt að reyna að breyta öðrum en ekki sjálfum sér. Eða vilja hafa aðstæður öðruvísi. Minna sig á að lífið er núna en ekki seinna og sjá það góða í öðrum. Þið vitið þetta með að sjá bjálkann í eigin augum en ekki flísina í annarra..
3. Þú skalt vera hugrökk og prófa reglulega eitthvað nýtt.
Gera það sem ég er hrædd við og til að virkja sköpunarkraftinn vera dugleg að prófa nýtt. Kynnast nýju fólki, nýtt áhugamál, smakka nýjan mat, prófa að búa á nýjum stöðum, prófa að sjá annað sjónarhorn. Prófa ný verkefni o.s.frv.
4. Þú skalt gefa eins mikið og þú getur fyrir sjálfan þig og ekki ætlast til þess að fá viðurkenningu eða verðlaun fyrir.
Vera dugleg að gefa öðrum eftirtekt, gefa peninga þegar ég get, gefa tíma og gefa þeim sem minna mega sín. Gefa "dót" sem ég hef ekki þörf fyrir og gefa mig í verkefni. Passa mig á því að gefa ekki til að aðrir sjái hvað ég er góð stelpa heldur þegar mig langar til sjálf.
5. Þú skalt þakka fyrir allt sem þér öðlast, líka þegar á móti blæs.
Vera meðvituð, á hverjum degi um þær dásemdargjafir sem manni veitast. Kærleikurinn er þar stærstur.
6. Þú skalt láta drauma þína rætast.
Amen.
7. Þú skalt gera ráð fyrir því besta og treysta því að allt fari vel. Sleppa takinu.
Reyna eins og ég get að vera bjartsýn og jákvæð - það er svo miklu skemmtilegra. Sleppa takinu og leyfa guði, eins og sagt er.
8. Þú skalt fylgja þinni innri rödd.
Stoppa við og hlusta, áður en ég framkvæmi (ekki alltaf auðvelt).
9. Þú skalt ýta undir, stuðla að og njóta fegurðar.
Njóta lista, lifa fögru lífi, vera í náttúrinni, hafa fallegt í kringum mig. Sjá fegurðina í fólkinu mínu, leggja áherslu á hið fagra (og kaupa af og til fallega skó...).
10. Þú skalt taka þátt af ástríðu og njóta þess.
Taka þátt í lífi vina minna og fjölskyldu, taka fullann þátt í verkefnum mínum. Reyna að þiggja og vera með í skapandi verkefnum. Láta ástríðuna vera leiðandi afl.
Þetta er nú ansi langur pistill en ég hvet þig til þess að setja þín eigin boðorð. Væri gaman að heyra af því. Kær kveðja,