c

Pistlar:

27. júní 2013 kl. 12:25

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Seinna kynþroskaskeið

Það er soldið fyndið að lesa blöð sem ætluð eru fólki um og yfr fimmtugt. Fyrirsagnir eins og "stunda enn kynlíf" og "það sem ekki má klæðast eftir þrítugt.." "Hvernig á að halda vextinum og heilsunni." Ég get ekki annað en hlegið upphátt og hrist höfuðið. Þvílík tímaskekkja!

Það er eins og markaðssérfræðingar hafi enn ekki áttað sig á að hópurinn sem nú fyllir fimmtugt er stærstur, ríkastur og öflugasti markaðshópurinn. Fólk um fimmtugt eyðir meira í tæki og tól, heilsudót og snyrtivörur, heimilsdót og annað heldur en yngri hópurinn. Fólk um fimmtugt lífir líka alveg jafnmiklu kynlífi (ef ekki meira því oftast eru ekki lítil börn að trufla, svo eru líka margir búnir að skipta út maka og komnir með rétta eintakið......). Fólk um fimmtugt ferðast meira og lengra, fólk um sextugt er á fleiri námskeiðum en aðrir og fólk um sjötugt er á fullu í menningunni. Áttræðir einstaklingar í fullu fjöri eru líklegri til að skella sér í siglingu en þeir sem eru um þrítugt.

Horfið á BBC og erlenda fréttaþætti og þið sjáið fréttahauka á öllum aldri. Lesið blöð (bæði pappír og netið) og þaulreyndir fréttamenn túlka heiminn. Blaðamenn, sem starfa hjá fréttamiðlum, hér á landi eru yfirleitt í yngra kantinum. Sú þróun hefur átt sér stað að undanförnu að fólk fer ekki að heimann fyrr en undir þrítugt. Þannig er barndómurinn eða ungdómurinn að lengjast og "fullorðins" ár að lengjast í aðra áttina líka. Heilbrigt fólk verður ekki gamalt fyrr en eftir áttrætt og jafnvel lengur ef það hefur lifað heilbrigðu lífi og hefur góð gen. 

Ef einungis fulltrúar yngsta hópsins eru á fréttablöðum og í fjölmiðlum, eða á þingi þá erum við ekki að fá raunsanna mynd af því hvernig hjarta þjóðfélagasins slær.

Það er nefnilega þannig að á árunum 45-55 förum við í gegnum seinna kynþroskaskeið þar sem við lítum í eigin barm til að svara spurningunni: Hver er ég? Í stað þess sem við gerðum á fyrra kynþroskaskeiði en þar horfðum við á hópinn og spurðum svo: Hvernig get ég passað inn í hópinn?

Eins og eftir fyrra kynþroskaskeið þá fer allt af stað í hausnum og likamanum á okkur. Það þarf ekki að fjalla sérstaklega um að fólk um fimmtugt megi ekki klæða sig í leðurbuxur, það hlustar hvort sem er ekkert á hvað það má eða má ekki gera! Þetta fólk gerir nákvæmlega það sem það langar til að gera!

Nú er komin tími á sumarið og sumarfrí :-). Njótið sumarsins, hvers annars og lífsins í botn - já og stiliið tónlistina svo hátt að allar sellur líkamans hrópa á fjör!