Ég er nýkomin úr pílagrímagöngu um norður-Spán, eða nánar tiltekið um Jakobsstíginn sem liggur til Santiago de Compostella. Þangað hafa pílagrímar gengið í gegnum aldirnar til að þess að öðlast syndaraflausn og reyna sig í leiðinni. Pílagrímur er sá sem ferðast af trúarlegum ástæðum eða einfaldlega sá sem er ferðalangur.
Við vorum þrjátíu og fimm íslenskar valkyrjur, allar yfir 45 ára gamlar sem gengum saman gegnum súrt og sætt. Nokkrar misstu táneglur, aðrar fundu fyrir mjöðmum á nýjan máta. Sumar döðruðu við aðra pílagríma á leiðinni en aðrar voru í innri íhugun og tóku ekkert eftir þeim körlum sem gengu með. Pílagrímar sameinast einhvern veginn á stígnum þannig að maður var farin að þekkja samferðamenn. Við vorum að sjálfsögðu orðnar þekktar á stígnum sem "þessar íslensku", þóttum háværar á kvöldin, og jafnvel ekki alveg "ekta" því við gistum ekki alltaf á hostelum.
Maður lærir margt um manninn og leiðina á pílagrímaför. Skildum ýmislegt eftir á stígnum, sorgir og vonbrigði voru flæddu út með svitanum. Á Fyrirgefninga fjalli fyrirgáfum við og síðan mættum við okkur sjálfum. Í jóganu endurókum við þreyttar "ég elska þig mjaðmir", og síðan féllum við örþreyttar í svefn og dreymdum fótakrem og "second skin" plástra. Allar komu þó aftur og enginn þeirra dó - meira segja komum við sterkari til baka, líkamlega og andlega. Það er einhver kraftur í hópi kvenna sem tekst á við verkefni saman.
Hér er það sem ég lærði ef einhver æltar í pílagrímagöngu:
Það er nauðsynlegt að ganga skó til - annars er hætta á að missa nokkrar táneglur.
Skór eiga að vera stórir - líka brjósthaldarar, annar fer mann að verkja undan þeim.
Mjaðmir munu kvarta - ekki hlusta.
Hné munu væla - verkatölfur eru himnasæla stundum.
þegar maður hugsar "hvernig datt mér þetta í hug..." þá segir maður upphátt við heila sinn, hættu nú! .. og labbar áfram.
Ef maður hefur ekki borðað í nokkra klukkutíma og er orðin svangur á göngu þá gæti maður orðið uppvís af ofbeldisverkum.
Nauðsynlegt er að drekka kaldan bjór þegar maður er búin að ganga í hita í marga, marga klukkutíma.
Fjöll eru til að sigrast á þeim. Ef maður bara heldur áfram þá kemst maður oftast á leiðarenda.
Spænskir kílómetrar eru lengri en íslenskir.