c

Pistlar:

3. júní 2014 kl. 17:44

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Frelsinu fegin eða hvað?

iPhoto 

Júní runninn upp. Í landi hins eilífa sumars er erfitt að gera greinarmun á mánuðum og árstíðum. Var að fara yfir árstíðirnar með stelpunum og átti erfitt með að heimfæra þær upp á þann veruleika sem við búum í núna. Ég þarf að afla mér upplýsinga um það hvernig árstíðirnar eru aðgreindar hér í Kalí svo ég geti komið því áfram til afkvæmanna. Einhvern veginn verðum við að aðgreina sumar og vetur, er það ekki?

 

Á mínu heimili er mikið rætt um haustið þessa dagana. Komandi haust verður tími breytinga fyrir okkur stelpurnar á heimilinu. Stóra stelpan mín á leið í skóla og lillan mín á leið í leikskóla aftur eftir 10 mánaða hlé. Ég er því hugsi yfir hvað ég eigi að gera við 5 klukkustundir af frelsi dag hvern. Og þá er gott að vera með æði fyrir því að gera lista yfir hina ýmsu hluti.

 

Frelsislisti Sifjar:

 

1. Fara í ræktina. Tim getur ekki hangið einn alla daga, um að gera að eyða meiri tíma í að reyna að prumpa ekki fyrir framan aðra en eiginmanninn. (Það tók mig þó nokkur ár að byrja að prumpa fyrir framan hann!)

 

2. Byrja aftur að læra á píanó. Langt síðan síðast. Ég lærði á píanó frá 8 ára aldri til 12 ára og þráttaði við foreldrana öll fjögur árin um það að ég væri ekki undraverður snillingur eins og þau héldu og hefði því lítið að gera við þessa píanótíma. Ég hélt illa takti fyrir utan það að nenna aldrei að æfa mig. Nema um helgar, snemma, þegar ég var viss um að stóri bróðir svaf vært. Það fannst mér rakinn tími til að æfa tónstigana. Tónstigaæfingar hljóta að vera versti óvinur fjölskyldumeðlima tónlistarnema. Stóra bróður dreymir enn martraðir í anda Stephen King þar sem píanó er af hinu illa. 

 

3. Verða eins og Sarah Jessica Parker í SATC. Sitja gáfuleg á ýmsum kaffihúsum bæjarins með Macinn minn svo allir haldi að ég sé að skrifa stórkostlega skáldsögu. Möguleg hliðaráhrif gætu verið að ég skrifaði stórkostlega skáldsögu. Ég trúi nefninlega sterkt á “Fake it till you make it” og það hefur gefist vel.

 

4. Verða mjó. Afleiða af lið nr. 1. Einhvern veginn hef ég haldið að ef þetta eða hitt breytist í mínu lífi þá verði ég kannski mjó. Svo kannski munu 5 klukkustundir á dag af frelsi verða til þess að ég verði mjó. Ég get allavegana haldið áfram að reyna að “secreta” þetta til mín með þessum hugsanagangi.

 

5. Borða. Það gerði ég í fæðingarorlofinu með miklum árangri. Borðaði allskonar kræsingar á kaffihúsum víðsvegar um bæinn auk þess sem ég borðaði í heimahúsum með öðrum nýbökuðum mæðrum. Gallinn við þennan lið er að hann útilokar lið 4 og gerir Tim í lið 1 reiðann. Kostur er að þetta passar ágætlega við lið 3, þ.e.a.s. kaffihúsaseturnar. 

 

6. Tana mig í drasl. Ég hef aldrei orðið brún. Amma sagði við mig að ég væri með postulínshúð eins og kóngafólkið. Það er einskis virði í löndum þar sem lýðræði er við ríki og mér hefur gengið illa að troða mér inn í konungsfjölskyldur annarra landa. Ég er þó ekki bjartsýn á að ná miklum árangri með þetta. Fyrir ferminguna fór ég í ljósabekkjatíma eins og aðrar fermingarstúlkur. Árangurinn lét á sér standa en ég náði þó þeim vandræðalega sigri að brenna svo heiftarlega á rassinum að ég gat ekki setið í nokkra daga.

 

7. Verða pró tölvuleikjaspilari. Mér skilst að ég geti haft tekjur af því. Tekið þátt í mótum og fengið greitt fyrir. Galli á gjöf Njarðar gæti verið geðvonskan sem ég upplifi þegar ég spila tölvuleiki. Meira að segja þegar ég reyndi við Sims var ég brjáluð í skapinu. Gæti því haft slæm áhrif á heimilislífið…

 

8. Verða uppgötvuð í Hollywood og verða kvikmyndastjarna. Þetta plan er komið lengst á vinnuborðinu. Fyrsta skref. Flytja til LA. Næsta skref. Deit með Jason Priestley í bókabúð. Og nú er ég bara að bíða. Þetta er land tækifæranna, það hlýtur að koma að þessu. 

 

9. Eyða dögunum í hinar ýmsu fegurðaraðgerðir sem mér standa til boða í nærumhverfi mínu. Bara á götunni minni einni eru u.þ.b. 30 verslanir/stofur sem bjóða mér lausnir á hinum og þessum útlitslegu vandamálum. Það er lasic húðhreinsun (tekur reyndar bara 10 mínútur og þá ætti ég eftir 4 klst og 50 mínútur), fótsnyrtingar og handsnyrtingar, augnháralitun og augabrúnaplokk, húðstraujun (veit ekki alveg hvað það felur í sér en hlýtur að vera stórkostlegt), bótox, nudd (heilnudd, sogæðanudd og allskonar meira bland í poka nudd), vax af allri sort (ég get breytt mér í hárlausu Sif og fengið hlutverk í Freak Show sem er á Venice Beach?) og svo mætti lengi telja. Þetta væri þó líklegt til að setja eiginmanninn á hausinn þar sem kostnaðurinn við þetta gæti vaxið hratt. Ég hef nefninlega heyrt að þegar maður byrjar á annað borð sé ómögulegt að stoppa og því myndi þetta líklega enda í skurðaðgerðum.

 

10. Verða atvinnubrimbrettakappi. Finnst þó ólíklegt að þetta verði að raunveruleika fyrr en að liður 4 er í hús. Tilhugsunin um að vera í blautbúning er óbærileg í augnablikinu…

 

 

 

Allt góðar hugmyndir, ekki satt? Ef þið hafið fleiri, endilega sendið þær á frelsisstyttan@bandarikin.is


Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira