c

Pistlar:

4. september 2014 kl. 16:22

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Kjötsúpuveisla í Los Angeles

Ég er í dekri þessa dagana. Mamma og pabbi mættu á svæðið í síðustu viku. Ekkert eins og að hafa þau hérna. Þau mættu með ferðatöskur fullar af góssi sem gladdi heimþráða hjartað mitt óendanlega mikið. Undanfarna daga hefur því verið íslenskt þema á heimilinu, hálfundarlegt í 27 gráðu hita en ég læt það að sjálfsögðu ekki stoppa mig. Upp úr ferðatöskunum góðu komu m.a. eftirfarandi hlutir: 

Kleinur. "Gæðakleinur" Myllunnar eru ekki jafn góðar og kleinurnar sem amma steikti þegar ég var krakki en þær slógu nú samt í gegn hérna megin.

product_233.jpg

Lifrarkæfa, kindakæfa og auðvitað gamla góða lifrarpylsan. Nestisbox stelpnanna litað af þessu undanfarna daga, kæfusamlokur og lifrarpylsusneiðar vakið lukku í skólum beggja.

Súpukjöt. Mamma gerir bestu kjötsúpu í heimi. Hún er rauð, ekki gul eins og þessi hefðbundna íslenska. Mamma ætlar að henda í hana í kvöld og ég mun borða hana með viftuna á fullum krafti svo ég kafni ekki úr hita.

Flatkökur og hangikjöt. Fullkomin blanda, ekki satt!

Íslenskt sælgæti. Engin 30 daga hreinsun í gangi hérna lengur. Súkkulaðirúsínur og pipp. Draumur og Lindubuff, er til betra nammi?

Reykti laxinn. Ég veit, ég veit. Til reyktur lax hérna og allt það. En hann er bara ekki jafn góður. Uppáhaldið mitt er frá Opal Seafood, namm.

Dekurrósin sem ég er, þá voru ekki bara matvæli í töskunum. Onei. Ég er sko einkadóttir foreldra minna og stundum geng ég undir nafninu Prinsessan á bauninni. Mamma mín fór í uppáhalds skóbúðina og upp úr töskunni kom skópar frá besta skóhönnuði í heimi, Chie Mihara. Hamingjustunur. Og Iitala kertastjaki. Dæturnar fengu glaðning líka, hlauppúka og íslenskar teiknimyndir. Og bækur.

Svo sendi yndislega vinkonan umhyggjupakka (Care package) sem fullkomnaði þetta algjörlega. Malt og appelsín, íslenskur brauðostur og eigum við að ræða þristakúlurnar? Ég veit að þær eru pissugular á litinn en það skiptir bara engu máli.

index.jpg

Heimþráin hvarf eins og dögg fyrir sólu og hamingjubrosið er fast á okkur fjölskyldumeðlimum. En ég gæti mögulega þurft að taka annað 30 daga plan að þessu öllu loknu. En ég harðneita samt að hætta að drekka kaffi. Kemur ekki til greina. Og ein og ein þristakúla getur varla verið svo hættuleg?

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira