c

Pistlar:

2. janúar 2015 kl. 18:32

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Þá árið er liðið í aldanna skaut!

aramot.jpgJæja. 2014 liðið og mesti æsingurinn yfir Skaupinu að líða hjá. Eiginmaðurinn komst í fréttamiðla fyrir að tísta um skaupið á Kaliforníu tíma. Enn sannast sú fornkveðna vísa um að fjarlægðin geri fjöllin blá. Hér horfðum við á skaupið, 9 Íslendingar á breiðu aldursbili, yngsti þriggja og elsti 62. Og við hlógum. Oft og mörgum sinnum og stundum lengi. Það var bara svo margt gott í því og allt satt. Reykjavíkurdætur gáfu þessu gott start og leikararnir voru margir og góðir. Ég á mér enga uppáhalds senu, þær voru margar svo góðar. Teiknimyndasenan var afbragð, "Þetta reddast krakkar", ungu menntuðu hjónin á leið í áburðarverksmiðjuna hans Simma, Simmi í viðtalinu hjá Gísla Marteini, Spilaborgarsenan öll var æðisleg og svo mætti lengi telja. Við virðumst þó vera í minnihluta, almennt virðist fólk ekki hafa skemmt sér yfir þessu eins og við. En þannig á það að vera með skaupið, skiptar skoðanir. En ófaglegt og ósmekklegt fannst mér að sjá ráðherra og þingmenn hafa skoðun á skaupinu og tengja það við kostnað þess að gera þáttinn. Sorrí, en það hljómar bara eins og þau séu ógeðslega tapsár. Hvað varð um að taka gagnrýninni með reisn eins og tíðkaðist hér áður fyrr með skaupið?

Á síðasta ári strengdi ég fá áramótaheit, ég man bara eftir einu. Það var lestraráskorun til sjálfrar mín. Ég hef sko alltaf verið hrifin af slíkum áskorunum. Þegar ég var 12 ára, í Melaskóla, komst ég í blöðin fyrir að sigra slíka keppni. Þá hafði ég lesið langmest allra nemenda í bekknum mínum eða 75 bækur á 6 mánuðum, einar 12 þúsund blaðsíður. Þegar blaðamann bar að garði sat ég við lestur og hvað var ég að lesa? 12 ára? Jú, ævisögu Hófíar fegurðardrottningar. Good times! Allavegana. Í ár ætlaði ég mér að lesa 65 bækur og stefnan var að auka lestur ljóðabóka. Að auka ljóðabókalestur var svo sem auðvelt í sjálfu sér, árið 2013 las ég ekki eina slíka en í ár las ég einar 4-5. En mér reyndist erfitt að lesa 65 bækur og síðustu dagana fyrir áramót mátti ég hafa mig alla við, svo mjög að á Gamlárskvöld klukkan 22 sat ég inni í herbergi og las Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á höfuðið á henni og fleiri barnabækur, bara til að ná settu marki. Það var bara ekki hægt að gefast upp fyrir þessu! Á einu ári tókst mér að lesa færri bækur en 12 ára ég las á hálfu ári en mér til réttlætingar munar þó rúmum 6 þúsund blaðsíðum því á þessu ári las ég yfir 18 þúsund blaðsíður. Sem er bara alveg ágætt.

Í ár verða áramótaheit líka. Ég er samt löngu hætt að nenna að tala um kíló, sykur og hollustu í áramótaheitum, það er svo klént eitthvað. En ég vil gjarnan halda áfram með lestraráskoranir og var bent á eina góða (sjá mynd).

lestraraskoun.jpg1. Lesa bækur, margar og góðar og haka við á listanum. Bók frá fæðingarári mínu, bók með töfrum, bók byggð á sjónvarpsseríu og fleira. Spennandi lestrarár framundan!

2. Safna peningum. Sko. Ég veit að græddur er geymdur eyrir og allt það en við hjónin erum samt arfaslök í öllu sem heitir sparnaður. Ég er of föst í því að lífið sé til að lifa því og krónurnar hverfa því jafn hratt og þær koma inn. En nú skal tekið á því. Fann þessa fínu söfnunaráskorun fyrir árið og ætla að prófa hana!

3. Heimsækja stað sem ég hef ekki komið á áður. Þetta er árlegt þema hjá mér og gengur vel. Í ár heimsótti ég t.d. Napa dal, þangað hafði ég aldrei komið, nú og San Diego og svo hingað og þangað um Los Angeles og þar er margt enn óséð. Verður spennandi að sjá hvert ég rata á þessu ári.

4. Minnka viðveru á Facebook. Ég elska Facebook, ekki misskilja mig. En við eyðum of miklum tíma saman.

5. Ná 20 þúsund skrefa degi í Fitbitinn minn, hef lengst komið í 18 þúsund. Nú skal þetta gerast! Ef David Sedaris getur það, þá hlýt ég að geta það líka.

6. Læra eitthvað nýtt. Bæði eitthvað spennandi og eitthvað praktískt.

7. Elda út fyrir þægindarammann og fara á matreiðslunámskeið. Gæti dekkað lið nr 6 líka þá!

8. Fara í fleiri jógatíma. Reyna að komast þar yfir óþægindi mín í kringum fólk sem kyrjar. En alls ekki byrja að kyrja sjálf, það er bara ekki töff, sorrí!

9. Sjá U2 á tónleikum. Og muna að ef Bono kallar mig  upp á svið til að syngja "One" með sér, þá bara að stökkva!

10. Segja oftar já en nei. Sem foreldri er eins og "nei" sé nýja mantran mín. Svo leiðinlegt að segja stanslaust nei. Skítt með það þó þær verði þá óttarlegar frekjudósir því þær fá allt sem þær vilja, ég verð þó allavegana jákvæðasta manneskja í heimi!!!

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira