Eftir því sem jóga vex ásmegin meðal almennings og vísindamanna fjölgar þeim sem hafa áhuga á systurvísindum jógafræðanna, Ayurveda, sem ýmist eru kölluð vísindi lífsins eða indversku lífsvísindin. Í þeim fræðum, sem að nokkru hafa verið vísindalega rannsökuð, einkum það sem snýr að lækningajurtum, er að finna heilstætt kerfi og hafsjó upplýsinga um nánast allt á milli himins og jarðar. M.a. um tengsl manneskjunnar við náttúruna og hvernig mismunandi árstíðir og bragðflokkar hafa ólík áhrif á lífsgæði okkar.
Fyrir þremur árum, eftir að ég sótti námskeið í þessum stórmerku reynsluvísindum hjá Kripalu jógastofnunni í Bandaríkjunum - en hafði þó lesið mig mikið til um þau áður - varð ég margs vísari. Þá rann m.a. upp fyrir mér af hverju Vesturlandabúar eru gjarnan að glíma við þreytu, ofþyngd og bjúg. Á því eru sjálfsagt nokkrar skýringar. En fáar eins áhugaverðar og að í okkar heimshluta er borðað meira af söltu og sætu en víðast hvar annars staðar. Samvæmt indversku lífsvísindum skapar það einmitt þessa tegund ójafnvægis. Í vedísku frumritunum er upplýst að ekkert sé mikilvægara heilsu mannsins en heilbrigð meltingargló, kölluð agni.
Það sem skortir allnokkuð upp á í okkar mataræði er það sem flokkast sem súrt, sterkt, herpandi og beiskt. Bragðflokkarnir sem við eigum að horfa í til að halda jafnvægi eru sem semsé í heildina sex. Þótt mikil vitundarvakning hafi orðið um hollara mataræði vantar enn talsvert upp jafnvægi milli bragðflokka. Þetta misserið sjáum við t.d. sveifluna í þá átt að margir eru hættir að borða sætu. Þannig á það ekki vera. Sæta er jafn mikilvæg og allt hinir bragðflokkarnir. Þar erum við að tala um hollari sætu úr heilum óunnum mat. En líka sætu eins og t.d. úr döðlum eða góðu lífrænu hunangi, sem telst ein sú albesta. Stundum er meira að segja minnst á það í Ayurveda að þeir sem eru í ofþyngd, sérstaklega ákveðnar líkamsgerðir, geti notað nærandi sætu í réttu samhengi til að léttast á sál og líkama. En það er efni í aðra grein.
Hér má í stuttu máli sjá bragðflokka indversku lífsvísindanna og hvaða gagn er af þeim og ógagn:
Sætt: Í góðu hófi getur hið náttúrulega sæta gefið okkur ánægju, lífskraft, styrkt vefjafrumuefnin, taugakerfið og einfaldlega gert okkur sætari. Undir sætt flokkast heilir ávextir, hunang, döðlur, mjólkurmatur, kjöt, fiskur, korn, hnetur, möndlur, sesam- og sólblómafræ, hrísgrjón og fleira. En um leið og náttúruleg óunnin sæta er talin geta nært milta og briskirtil getur ofgnótt sætu, sérstaklega unnin sæta, skaðað þessi líffæri líka.
Salt: Viðheldur vökvajafnvægi í líkamanum og örvar meltinguna. Ef við borðum of mikið salt, sérstaklega af næringarsnauðu salti, sem ekki geymir fjölda góðra steinefna, (á jafnan við um Vesturlandabúa), getur það skaðað nýrun og líka aukið hrukkumyndun. Besta hugsanlega náttúrusaltið er himalayasalt og nokkrar góðar tegundir sjávarsalts, t.d. þetta íslenska. Annað sem er saltað frá náttúrunnar hendi er t.d. sjávargrænmeti og sellerí.
Beiskt: Hið beiska bragð skortir einna mest á hjá Vesturlandabúum. Það er útvíkkandi, hreinsar óhreinindi úr líkamanum, nærir lifur og ljáir húðinni líf. Dæmi um beiska fæðu sem gott er að neyta reglulega er sítróna (ekki bara súr skv. Ayurveda), og guði sé lof fyrir kaffið og súkkulaðið (lífrænt, 70%) því annars væri líklega mikill skortur á beisku bragðgæðunum. Annað sem telst m.a. beiskt er grænkál, spírur, klettasalat, rabarbari, iceberg, túrmerik, lakkrís og sesamfræ (sem eru bæði sæt og sölt). Of mikið af beiskri fæðu gæti skaðað hjartað.
Sterkt: Örvar blóðrás og meltingu, þurrkar, losar stíflur, er hitagefandi og gerir okkur skýr í hugsun. Í þessum bragðflokki eru t.d. rauður pipar, laukur, kardimommur, engifer, radísur, sinnepsfræ, laukur og hvítlaukur. Of mikið sterkt er sagt geta skaðað ristilinn.
Súrt: Örvar matarlyst og bætir meltinguna. Dæmi um súra fæðu eru t.d. plómur, jarðaber, tómatar, sítrusávextir, óþroskaðir ávextir, tómatar, miso og gerjaðir ostar. Of mikið súrt er sagt geta haft slæm áhrif á lifrina.
Herpandi/samandragandi: Slíkar fæðutegundir er að finna víða í náttúrunni og erum við Íslendingar að verða ágætlega sett þar. Dæmi um herpandi fæði eru epli (sem eru líka sæt), kartöflur og grænt grænmeti, blómkál, kanill, kardimommur, túrmerik, granatepli, trönuber, bláber, kóríander, linsur og baunir. Herpandi fæða færir okkur skerpu, dregur úr bólgum, græðir magasár, er róandi og dregur úr flæði líkamsvessa. Ef hennar er ekki neytt í hófi er hún sögð geta skaðað ristil.
Líkt og í jóganu ganga Ayurvedafræðin út á að finna jafnvægi. Því ætti hver og einn að neyta fæðu úr öllum þessum fæðuflokkum daglega, helst í hverri einustu máltíð. Þótt engin boð og bönn séu í indversku lífsvísindunum er jafnvægið þar hávegum haft. Fæða skv. þessum fræðum hefur ekki síður áhrif á okkur andlega en líkamlega.
ATH: Sama fæða, krydd, eða lækningajurt getur flokkast undir einn eða fleiri bragðflokk. Því fleiri bragða sem ein tegund nær til þeim mun heilnæmari telst hún vera. Listinn yfir fæðuna í hverjum flokki er alls EKKI tæmandi en gefur góða mynd.