c

Pistlar:

30. nóvember 2015 kl. 22:32

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Stórmerkar flotrannsóknir vekja vonir

samflot á flúðumFáir efast um að Bandaríki Norður-Ameríku eru mekka jógaiðkunnar í heiminum í dag. Þar er gerjunin þótt uppsprettan sé sannarlega úr austrinu. Það sem nú vekur áhuga vísindamanna eru miklar framfarir á líkamlegri og andlegri heilsu uppgjafahermanna sem stunda jóga og hugleiðslu. Þá gefa yfirstandandi rannsóknir á floti sterkar vísbendingar um að það geti unnið á áfallastreituröskun. Það var hið virta tímarit Time sem upplýsti um stórmerkar flotrannsóknir sem nú eru í gangi fyrir fáeinum dögum.
Það sem er þó ekki síður áhugavert er að undanfarin ár hafa vísindamenn verið að tengja saman upplifun hermanna af stríði við upplifun fólks sem orðið hefur fyrir áföllum og/eða hefur alist upp við erfiðar aðstæðar. Það sé að mörgu leyti eins og að hafa upplifað stríð.

Tíðni áfallastreituröskunnar (Post Traumatic Stress Disorder, PTSD) meðal uppgjafahermanna er mjög vaxandi. Hún hefur mælst 20% prósent meðal hermanna sem börðust í Írak og Afganistan. Í dag er talað um að 200 þúsund bandarískir hermenn þjáist af áfallastreituröskun, auk þess sem há tíðni sjálfsvíga er hrikaleg. Til að gefa örlitla innsýn hefur sjálfsvígum við störf í hernum fjölgað um 30% frá 2008. Afleiðingar þess að hafa tekið þátt í stríði eru líka skráðar sem lyfjamisnotkun, alkóhólismi, heimilisleysi og fangelsisvist.

Til að freista þess að hjálpa uppgjafahermönnum hefur sjónum í auknum mæli verið beint að jógafræðunum, sem nú þykir sýnt að bjóði upp á áhrifaríkar leiðir til að eiga við afleiðingar stríðs. Fjöldi rannsókna hefur komið fram í dagsljósið sem staðfesta að þeir uppgjafahermenn (sem eru hermenn hættir störfum) sem stunda jóga (í senn stöður, markvissa öndun og möntrur (líkami, hugur, sál)) sýna miklar framfarir í að vinna bug á áfallastreituröskun, á sama tíma og þeir styrkjast mikið andlega og líkamlega. Þá hafa vísindarannsóknir gefið til kynna að jóga geri hermönnum kleift að sofa betur, streitan minnki og líkamlegur og andlegur sveigjanleiki aukist. En líka sjálfskærleikur og sjálfstraust.

Er flotið helsta vonin?

Hitt er að nú er eru í gangi afar merkilegar rannsóknir á áhrifum flots á áfallastreitursökun sem lofa mjög góðu. Áhugaverð grein um það birtist fyrr í þessum mánuði í TIME. Greinin lýsir m.a. reynslu uppgjafahermanns (sem sannarlega er greindur með áfallastreituröskun) af því að fljóta en upplýsir um leið um ákaflega merkilegar flotrannsóknir sem nú standa sem hæst.

Hér er stiklað á því helsta úr greininni í TIME:

Hann hófst kvöld eitt. Skjálftinn sem skók líkama Michael Harding þar sem hann lá sofandi. “Furðulegt,” hugsaði hinn 23 ára ástralski hermaður sem var staddur í Afganistan. Fáeinum dögum áður hafði hann tekið þátt í nokkurra klukkustunda umsátri þar sem yfirmaður hans var skotin til bana.
Skjálftinn varð brátt svo mikill að hann varð að biðja vin sinn um að kveikja fyrir sig í rettunni. Hann gat ekki svo mikið sem drukkið vatn úr flösku án þess að það sullaðist niður eftir skyrtunni. Í matarskálnum hafði skjálftinn í tvígang orðið svo spastískur að hann missti niður matarbakkann.

Harding var leystur frá störfum skv. læknisráði árið 2012 vegna áfallastreitu og sat einnig uppi með alveg nýjan persónuleika sem var kaldur og lokaður. Hann átti að auki erfitt með svefn, fékk matraðir og svitnaði á næturnar.flottankur

Til að freista þess að takast á við einkennin, prófaði Harding tvær tegundir af samtalsmeðferðum, fjórar pillutegundir og viskí og kók. Þegar ekkert dugði reyndi hann fyrir sér í jóga og hugleiðslu, prófaði safaföstu og ýmsar græðandi meðferðir. Það hjálpaði en þó ekki nóg til þess að óttinn og skjálftinn hyrfu að fullu.

Á þessum tíma leitaði konan hans, eins og hver örvæntingafull eiginkona myndi gera, eftir lausnum. Hvort eitthvað annað gæti komið til greina við meðhöndlun á áfallastreituröskuninni. Þá rakst hún á nokkur áhugaverðar umsagnir um það að láta sig fljóta. Eða þá aðferð sem snýst um að liggja í tanki í líkamsheitu og söltu vatni og fljóta.

Í huga Harding var flot hálfgert píp en hann lét engu að síður til leiðast í mars á síðasta ári. Og til að gera langa sögu stutta lognaðist hann út af í fyrsta flotinu, svaf í klukkutíma og vaknaði endurnærður. Eftir aðeins þrjú flot hafði slegið á óttann og ofurárverkina. Og eftir að hafa flotið regulega í þrjá mánuði hafði nætursvitinn líka minnkað. “Ég kann ekki skýringuna,” segir Harding. “En ég veit að mér líður betur og hugsanir mínar eru þægilegri.”

Þótt flot af ýmsu tagi hafi verið til lengur en elstu menn muna leikur engin vafi á því að í dag nýtur það að láta sig fljóta vaxandi vinsælda. Það segir sína sögu að árið 2011 voru 85 svokallaðar flotmiðstöðvar í Bandaríkjunum en í dag eru þær 250. Þar er átt við heilsuræktarstöðvar sem bjóða upp á flot í saltvatnstönkum sem að því er virðist vinnur á streitu og jafnvel áfallastreitu. Af þessum sökum hafa flotmiðstöðvar vakið áhuga vísindamanna. Justin Feinstein taugasérfræðingur er einn þeirra sem rannsakað hefur flot. Raunar hefur Feinstein svo mikla trú á áhrifum flots að í dag byggir hann alla vísindastarfsemi sína á rannsóknum á floti.

Flotrannsóknir í “heitum potti” - ekki tanki!
Á þessu ári opnaði hann einu flotrannsóknarstofuna í Bandaríkjunum. Float Clinic visindamiðstöðina við Laureate í Tulsa, Oklahoma, stofnun sem sérhæfir sig í heilarannsóknum. En þar inni eru engir tankar sem fólk er lokað inn í líkt og flotmiðstöðvarnar um gervöll Bandaríkin bjóða upp á, heldur flotlaugar sem minna meira á heitu pottana við sundlaugarnar Íslandi. Það gerir Feinstein til að koma í veg fyrir að nokkur fái innilokunarkennd.
Hjá Feinstein og félögum í Tulsa er gengið inn í hlýtt herbergi og í miðjunni er lítil hringlaga laug sem hefur að geyma mörg kíló af epsomsalti. Saltið er til að tryggja að engin spenna sitji eftir í vöðvum. Áður en rannsóknarviðfangsefnið, sem er að sjálfsögðu manneskja, er skoðuð nánar fær hún sjálf að myrkva herbergið þangað til engin sér neitt nema Feinstein. Þá rannsakar hann heila manneskjunnar sem flýtur. Það gerir vísindamaðurinn með því að mynda heilann fyrir og eftir flot og mæla heilabylgjur.

Það er skemmst frá því að segja að Feinstein og félagar eru hálfnaðir með fyrstu vísindatilraun sína, og þá fyrstu í veröldinni sem hefur verið framkvæmd með svona nákvæmum mælingum. Nú eru þeir í miðjum klíðum að skanna heila heilbrigðs fólks fyrir og eftir flot og bera myndirnar saman.
Það má því segja að háþróuð tækni taugavísindanna hafi hleypt nýju blóði vísindamenn sem í dag geta skoðað heila fólks á meðan á hugleiðslu stendur og eftir hugleiðslu og séð áhrifin. Þessar nákvæmu rannsóknir (með EEG búnaði og MRI tæki) sýna að hugleiðsla virkjar þann hluta heilans sem skerpir athygli um leið og hún dregur úr virkni möndlu (amygdala) í heila. Mandlan er sá hluti heilans sem virkjar “fight or flight” viðbrög okkar við ógn. Hvort sem ógnin er raunveruleg eða yfirvofandi. Það sem m.a. hefur þegar komið fram er að þessi mynd er skýrari hjá þeim sem hafa hugleitt lengi en hjá þeim sem eru að byrja að hugleiða. Viðurkenndar rannsóknir styðja nú þegar góð áhrif hugleiðslu við ótta og þunglyndi og að hún lækki blóðþrýsting.

Ennþá eru rannsóknir Feinstein í fullum gangi en hann er nú í miðri risa rannsókn sem hefur þegar fært honum þá sterku trú að flot stytti leiðina að djúpu hugleiðsluástandi. Feinstein er að uppgötva ákaflega margt: “Flot er að vekja með mér vonir um að stór hluti fólks sem aldrei nær að hugleiða geti nú komist í hugleiðsuástand,“ segir Feinstein.

Feinstein og félagar eru þegar farnir að sjá glitta í það að flot hefur sömu áhrif á heilann og lyf og hugleiðsuástundun. En þess má geta að Feinstein rannsakaði þunglyndislyfið lorazepam í tvíblindri rannsókn árið 2005. Í dag hefur hann fengið að sjá að flot hefur svipuð áhrif, nema það er ekki ávanabindandi. Núna, áratug síðar er Feinstein semsé að skoða flot í stað lyfja. Í rannsókn sinni núna skannaði Feinstein heila allra áður en tilraunin hófst. Síðan skipti hann upp hópnum. Báðir hóparnir fengu að prófa það sem vísindamennirnir telja hafa áhrif, sem var annað hvort 90 mínútna flot eða sami tími í slökun í hægindarstól. Feinstein lét báða hópa prófa tvær tarnir af báðum aðferðum til að passa upp á að nýjungin (þ.e. flotið) hefði ekki áhrif, en skannaði síðan heilabú hópanna eftir þriðju törn. “Í frumrannsókn komumst við í meginatriðum að því að það slokknar á möndlunni í heila eftir flot,” segir Feinstein. Og bætti við: “Það var mjög ánægjulegt að sjá það gerast án þess að það krefðist hugleiðslu.” Það er þó ekki allt búið enn því að sjálfsögðu þarf vísindasamfélagið viðameiri rannsókn svo það geti tekið flotið opnum örmum. Þótt margir geri það nú þegar. Þörf sé á annarri rannsókn með sömu niðurstöðum og meiru til.

Eldri flotrannsóknir

Feinstein er þó alls ekki eini vísindamaðurinn sem hefur látið heillast af floti. Nokkrar rannsóknir en nokkuð misjafnar að gæðum, hafa verið framvæmdar á undanförnum árum og áratugum. En líka rannsóknir sem gefið hafa góða raun. Meðal annars var ein merk rannsókn framkvæmd á sjöunda áratugnum af Thomas H. Fine. En á þeim tíma var talað um “hippadrauma” og rannsóknin töluð niður. Tveimur áratugum síðar framkvæmdi sami Fine rannsóknir á áfallastreituröskun og floti við University of Toledo. Þar voru þátttakendur látnir fljóta í 40 mínútur í einu og vísindaniðurstaðan var skýr: Streituhormónið kortisól minnkaði um 22% við flotið. Rannsóknin þótti heldur lítil en gaf þó skýra mynd um margt, m.a. að blóðþrýstingur lækki, geðsveiflur minnka, líka verkir og vöðvaverkir, auk þess sem flotið dró úr streitu.
Fine hafði á orði að flot geti haft miklu þýðingu sem meðferð við allskyns sjúkdómum sem við erum ennþá ekki búin að finna lausnir við.

Ein af fáum rannsóknum sem segir að fólk með kvíða geti unnið betur á kvíðanum með því að fljóta var birt í International Journal of Stress Management árið 2006. Þetta kom í ljós eftir að 70 einstaklingar með verki af völdum streitu voru rannsakaðir. Eftir 12 flottíma dró verulega úr verkjum, streitu, kvíða og þunglyndi. Ennfremur sem svefn batnaði og trúin á lífið jókst. Þessi áhrif vörðu í fjóra mánuði eftir að tilrauninni lauk.

Á næsta ári ætlar að Feinstein að endurtaka rannsóknina og skanna heila fólks með áfallastreituröskun fyrir og eftir flot. “Vonir okkar standa til að áhrifin af öllu þessu muni aukast hjá fólki með viðurkenndan kvíða,” segir hann. Ennþá fleiri rannsóknir standa fyrir dyrum t.d. er varða hvað áhrifin vara lengi eftir flot og hvernig heilinn breytist með reglulegu floti, t.d. 10-12 sinnum í mánuði? Vandinn í USA (og sá sem Feinstein hefur talsverðar áhyggjur af) er hversu dýrt það er að fljóta í flotttönkum, en eitt skipti kostar á bilinu 50 til 100 dollara.


flotmyndÞað sem Feinstein, Finn og fleiri vita ekki, enn sem komið er, er af íslensku Flothettunni og hversu auðvelt er að fljóta í upphituðum steinefnaríkum íslenskum sundlaugum og náttúruuppsprettum hér og þar. En við vitum fyrir víst að það mun komast til skila áður en langt um líður.

Það er þó gaman að geta þess að uppgjafahermaðurinn Michael Harding hefur keypt sér notaðan flottank og komið honum fyrir í kjallarnaum heima hjá sér. Þar flýtur hann einu sinni í viku, í um tvo tíma í senn. Hann er hins vegar að verða þreyttur á að hvetja vini sína í hernum að prófa tankinn. En þrátt fyrir góðar sannanir fyrir betri heilsu Harding hefur aðeins einn félaga hans látið til leiðast.

.

Aðalheimild:

http://time.com/floating/

Aðrar áhugaverðar heimildir og lesefni:

http://www.yogajournal.com/category/lifestyle/balance/yoga-for-veterans/

https://www.washingtonpost.com/news/federal-eye/wp/2015/04/10/warrior-pose-one-way-to-help-veterans-with-ptsd-lots-of-yoga/

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira