c

Pistlar:

15. apríl 2017 kl. 12:31

Vilborg Arna Gissurardóttir (vilborgarna.blog.is)

Í form með fjallgöngum

Fjallgöngur eru frábærar sem heilsu- og líkamsrækt. Að svitna undir berum himni, fá púlsinn upp og roða í kinnar. Sumum finnst tilhugsununin um að fara í fjallgöngu yfirþyrmandi ef að reynslan er lítil eða fyrri reynsla hefur ekki verið góð.


17500011_10155191497398817_97213748_oÞað geta nánast allir gengið á fjöll, þetta er bara spurning um að fara rétt að. Byrja á réttum stað og ætla sér ekki of mikið í upphafi. Algengt er að fólk velji sér Esjuna sem upphafsfjall en ég mæli með því að fólk prófi sig áfram á öðrum fjöllum fyrst. Fyrir þá sem eru að byrja myndi ég mæla með að fara á; Mosfell, Úlfarsfell, Helgafell í Hafnarfirði og reyna svo við Esjuna. Þannig má byggja upp þol og vinna sig smá saman uppá við. 

Það er ekki skynsamlegt að byrja á að keppa við tíma heldur fyrst og fremst að láta sér líða vel og læra inn á sjálfan sig í aðstæðunum. Góðri göngu fylgir ekki bara gott útsýni heldur líka ólýsanleg vellíðan þegar endorfínið byrjar að streyma um kroppinn.

Á móti fjallgöngunum er frábært að stunda styrktaræfingar, teygjur og „mobility“ æfingar. Það er gott að hafa sterkt kjarnasvæði (core), gott jafnvægi og byggja upp sterka fætur. Þeir sem eru komnir lengra í útivistinni geta notast við HIIT – æfingar, tímatökur og þjálfað upp góða tækni sem ég mun fjalla síðar um. 

Fjallgöngur hafa góð áhrif á hjarta og æðakerfið og sýnt hefur verið fram á að útivist hjálpi til við að létta lund ef svo ber undir.  Mér finnst sérstaklega gott að stunda útivist þegar ég er undir miklu álagi þar sem að maður nær að vera í algjörri núvitund. 

Að vera í formi er afar persónubundið hugtak og við eigum það til að vera miða okkur við hvort annað. Það er auðvitað allt í góðu og getur verið hvetjandi í réttum kringumstæðum. Það er þó mikilvægt að muna að maður er fyrst og fremst að keppa við sjálfan sig.

Fyrir þá sem eiga skrefa- eða púlsmæla er mjög gagnlegt að fylgjast með þeim upplýsingum og safna í sarpinn. Eins mæli ég sérstaklega með því að fylgjast með þróuninni í öppum eins og Strava eða Sportstracker. Þar er einmitt tilvalið að setja sér markmið um kílómetra eða hæðametra og verðlauna sig þegar því er náð.

Vilborg Arna Gissurardóttir

Vilborg Arna Gissurardóttir

Ástríða mín er náttúra, útivist og áskoranir og hef ég haft mikla köllun til þess að fylgja draumum mínum eftir. Mottóið mitt er: “Ef þú þráir eitthvað nógu heitt að þá finnurðu leiðina, – annars finnurðu bara afsökunina“. Gildin sem ég hef að leiðarljósi í öllum mínum verkefnum eru jákvæðni, áræðni og hugrekki. Bakgrunnur minn er fyrst og fremst úr ferðaþjónustu en ég hef sinnt hinum ýmsu störfum innan hennar. Ég er með B.A. ferðamálafræðum frá Háskólanum á Hólum í Hjaltadal og hefur auk þess MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Meðal leiðangra sem ég hef farið í eru skíðaferð yfir Grænlandsjökul, farið í siglingarleiðangra og gengið einsömul á Suðurpólinn. Jafnframt hef ég klifið fjöll bæði hér á landi og víða erlendis. Árið 2014 varð ég fyrsta og eina konan í heiminum sem hefur bæði klifið 8000m tind sóló og gengið á pól sóló. Það eru forréttindi að alast upp á íslenskum fjöllum og jöklum. Aðstæðurnar á Íslandi eru oft krefjandi og þá sérstaklega með tilliti til veðurfars. Íslenska náttúran hefur verið góður skóli með öllum sínum litbrigðum. Ég hvet fólk til þess að leyfa sér að dagdreyma því draumarnir eru oft undirrót þess að fólk setji sér markmið. Í dagdraumunum er maður nefnilega alltaf leynt og ljóst að ná markmiðum sínum og maður er að ferðast inn á staði og inn í aðstæður sem manni langar raunverulega að vera á. Auk þess er maður alltaf sigurvegari í sínum eigin draumum og við eigum að hugsa um okkur sem sigurvegara í okkar eigin lífi. Meira