Stykkið Fanný og Alexander var frumsýnt á Stóra sviði Borgarleikhússins í kvöld. Salurinn var þéttsetinn og ætluðu gestir aldrei að hætta að klappa. Sagan er eftir Ingmar Bergman og fjallar um Fanný og Alexander sem búa á ástríku og hlýju heimili. Skyndilega gerast óvæntir atburðir sem umturna lífi fjölskyldunnar.
Gunnar Eyjólfsson og Kristbjörg Kjeld léku elskendur í sýningunni og ekki í fyrsta skipti. Þau eiga áratugasögu sem elskendur á sviði. Dætur Gunnars, Þorgerður Katrín og Karítas, mættu ásamt móður sinni og mökum sínum á frumsýninguna.
Sagan um Fanný og Alexander er áhrifarík og heillandi. Leikararnir áttu sviðið og leikmynda- og búningahönnun fullkomnuðu verkið. Vytautas Narbutas hannaði leikmyndina og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sá um búningahönnun. Þetta er stykki sem enginn má missa af.