Óvænt afmælisveisla kom Gísla Rúnari Jónssyni, leikhúsmanni með meiru, í opna skjöldu á sextugsafmæli hans á miðvikudagskvöld.
Gísli, sem hafði ætlað að taka afmælinu rólega með huggulegri ferð á veitingastað í miðbænum, hafði ekki hugmynd um að á Silfurtunglinu í Austurbæ biðu hans hátt í hundrað vinir og ættingjar, tilbúnir til að fagna kappanum. Hafði hann verið beðinn um að afgreiða eitt mál í tengslum við Kaffibrúsakarlana, sem sýndir eru í Austurbæ, fyrir matinn, þar sem hópurinn beið hans.
Mikið var hlegið og margir brandarar flugu, allt í anda afmælisbarnsins. Var haft á orði að „gestirnir hefðu dáið úr hlátri“ enda ófáir úr landsliði íslenskra skemmtikrafta þarna samankomnir.
Veislustjórn var í höndum Stefáns Karls Stefánssonar, sem fórst hún vel úr hendi. Fór hann afar fögrum orðum um vin sinn og minntist þess m.a. þegar Gísli eitt sinn falaðist eftir gistingu hjá honum og Steinunni Ólínu í Ameríku í þrjár nætur, en endaði vestra í þrjú ár!
Við leyfum meðfylgjandi myndum að tala sínu máli.