Kátínan var í aðalhlutverki þegar Cava, nýr veitingastaður, var opnaður í kjallaranum á Laugavegi 28. Staðurinn sérhæfir sig í mexíkóskum réttum og víni á fínu verði. Staðurinn á að vera „partíveitingastaður“ þar sem fólk deilir réttunum, hlær og skemmtir sér án þess að það kosti of mikla peninga. Það verður þó ekki hægt að fara á staðinn öll kvöld vikunnar því hann verður bara opinn á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum. Þeir sem þrá að fara í gott partí á mánudagskvöldum verða því að halda það sjálfir heima hjá sér.
Cava var hannaður af Leifi Welding og er staðurinn hlýlegur með notalegri lýsingu. Skræpótt mexíkóskt áklæði prýðir bekkina sem eru upp við veggina nánast allan hringinn og á veggjunum eru verk eftir Jón Sæmund Auðarson.