Gullna hliðið var frumsýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu á föstudagskvöldið. Leikritið var frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar síðasta vetur en er nú flutt í bæinn. Eins og sjá má á myndunum var kátt í leikhúsinu.
Gullna hliðið er eitt af þekktustu og vinsælustu leikritum sem skrifuð hafa verið á Íslandi. Þessi bráðskemmtilegi alþýðuleikur hverfist um persónu kerlingar einnar sem má ekki til þess hugsa að nýlátinn eiginmaður hennar hljóti vist í Helvíti. Hún leggur því á sig langt og strangt ferðalag til þess að koma „sálinni hans Jóns“ inn í Himnaríki. Á leiðinni mætir hún ýmsum persónum úr lífi hins annálaða syndasels og verður smám saman ljóst að það mun ekki reynast þrautalaust að koma sál hans inn fyrir hið gullna hlið.
Verkið er eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi en Egill Heiðar Anton Pálsson leikstýrði því.
Með aðalhlutverk fara Aðalbjörg Þóra Árnadóttir Hannes Óli Ágústsson, Hilmir Jensson og María Pálsdóttir.
Egill Ingibergsson gerði leikmynd og lýsingu sýningarinnar og Helga Mjöll Oddsdóttir gerði búningana.