Tæplega 5000 gestir mættu á glæsilega bílasýningu sem Bílaumboðið Askja hélt síðastliðna helgi. Margir magnaðir Mercedes-AMG bílar voru sýndir sem og breið lína af Plug-In Hybrid bílum og er þetta ein veglegasta bílasýning sem haldin hefur verið hér á landi.
Hinn magnaði Mercedes-AMG GT sportbíll var aðalstjarna sýningarinnar en um er að ræða einn glæsilegasta sportbíl sem fluttur hefur verið hingað til lands og er hann nú staðsettur í sýningarsal þeirra að Krókhálsi 11. Bíllinn kostar rúmar 32 milljónir króna og er 476 hestöfl. Meðal annarra magnaðra bíla á sýningunni má nefna G-Class 4x4 í öðru veldi sem framleiddur er í takmörkuðu upplagi og C 63 S Coupé AMG sem er 510 hestöfl. Samanlagður hestaflafjöldi sýningarinnar var tæplega 5 þúsund.