Smartland fór í loftið 5. maí 2011 og því má segja að það hafi gengið á ýmsu á fyrsta árinu. Eitt er þó víst að Íslendingar kunnu að skemmta sér það herrans ár.
Ómar Ragnarsson fréttamaður og skemmtikraftur var í miklu stuði 2011 þegar hann háttaði sig í útgáfuboði Jakobs Frímanns Magnússonar sem fram fór í bókabúð Máls og menningar við Laugaveg. Þetta var í tilefni þess að Jakob Frímann gaf út ævisögu sína. Þið sem eruð ekki búin að lesa bókina ættuð að láta af því verða í kórónufaraldrinum.
Svo var allt á útopnu þegar Skemmtigarðurinn var opnaður í Smáralind. Allir og amma þeirra voru þar samankomnir eða Björn Ingi Hrafnsson og Hlín Einarsdóttir, Kári Stefánsson, Ágústa Johnson, Logi Bergmann, Sigmar Vilhjálmsson, Jóhannes Ásbjörnsson og svo mætti lengi telja. Skemmtigarðurinn er reyndar kominn undir græna torfu í Smáralind en eins og sjá má á myndunum voru allir í fullu fjöri. Meira að segja Kári Stefánsson var mættur.
Svo voru það Bubbi Morthens og Hrafnhildur Hafsteinsdóttir sem stálu þrumunni í útgáfuboði hans því þau voru svo ástfangin og gátu ekki hætt að kyssast. Þau eru ennþá á bleiku skýi og jafnánægð hvort með annað.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Svana Friðriksdóttir, Magnea Árnadóttir og María Sigrún Hilmarsdóttir létu sig ekki vanta þegar Sigrún Lilja hjá Gyðja Collection hélt mikið skvísuteiti sem ennþá er verið að tala um.
Eitt af aðalteitum ársins var lengi vel þegar Stöð 2 kynnti haustdagskrá sína með glans. Það var áður en allir duttu í Netflix og horfðu á línulega dagskrá. Helstu stjörnur bæjarins 2011 létu sig alls ekki vanta en þar á meðal var Karl Berndsen heitinn sem var ein af skrautfjöðrum bæjarins og lífgaði svo sannarlega upp á tilveru landsmanna þegar hann flutti heim frá Lundúnum, rak hárgreiðslustofu og var með vinsæla sjónvarpsþætti. Það var engin kona með konum nema hafa farið í klippingu til hans og er hans sárt saknað.
Svo var það kvikmyndin Eldfjall sem var frumsýnd í Háskólabíói. Þangað mættu helstu aðilar kvikmyndaheimsins og skemmtanalífsins á þeim tíma.
Árið 2011 gaf Tobba Marinós, sem nú er ritstjóri DV, út bókina Lýtalaus. Það var margt um manninn á skemmtistaðnum Esju sem nú hefur verið lokað en hann var í sama húsnæði og veitingastaðurinn Apótekið er núna.
Veitingastaðurinn Grillmarkaðurinn var opnaður sumarið 2011 og var vel mætt í opnunarteiti staðarins. Síðan þá hefur veitingastaðurinn verið einn sá allra vinsælasti enda maturinn ljúffengur og stemningin góð.
Leiklistarverðlaunin Gríman voru haldin hátíðleg 2011. Þangað mætti fólk í sínu fínasta pússi og mátti þar sjá KronKron-kjóla og fleira fínerí. Selma Björnsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Bryndís Ásmundsdóttir og Björn Thors létu sig ekki vanta.