Það var mikil stemning í Hörpu á laugardagskvöldið þegar starfsmenn RÚV héldu árshátíð í Silfurbergi. Ekkert var til sparað til þess að gleðskapurinn yrði sem glæsilegastur.
Freyr Eyjólfsson, verkefnastjóri hringrásarhagkerfis hjá Sorpu og fjölmiðlastjarna, var veislustjóri kvöldsins. Hann sá til þess að engum leiddist. Fólk var ekki búið að skola niður síðasta munnbitanum þegar Svala Björgvinsdóttir söngkona mætti og skemmti gestum. Hún þekkir starfsmenn RÚV vel eftir að hafa keppt fyrir hönd stofnunarinnar í Eurovision.
Stuðlabandið lék fyrir dansi en Bjarni Rúnarsson, fjölmiðlamaður á RÚV og bóndi með meiru, er einmitt í bandinu. Eins og tíðkast oft á skemmtunum hjá fyrirtækjum þá eiga stjórnendur það til að láta ljós sitt skína þegar gleðin nær hámarki. Þannig var það líka þetta kvöld þegar Stefán Eiríksson útvarpsstjóri vatt sér upp á svið og söng Gaggó Vest. Lagið sló í gegn árið 1986 og hefur lifað í hjörtum fólks síðan. Á einhverjum tímapunkti var Atli Fannar Bjarkason líka kominn upp á svið og vakti það kátínu.
Allar helstu stjörnur RÚV mættu á árshátíðina og jafnvel stjörnur annarra fjölmiðla líka. Snærós Sindradóttir lét sig ekki vanta og heldur ekki Freyr Rögnvaldsson eiginmaður hennar en hann starfar á Heimildinni. Fréttakonan María Sigrún Hilmarsdóttir mætti með kærastanum Tómasi Sigurðssyni forstjóra HS Orku. Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri Ríkisútvarpsins lét sig ekki vanta og heldur ekki Sunna Karen Sigþórsdóttir fréttamaður. Þar var líka Siggi Gunnars tónlistarstjóri Rásar 2 og Valgerður Þorsteinsdóttir skrifta sem verður fréttamaður hjá RÚV á Akureyri í sumar. Berglind Pétursdóttir lét sig heldur ekki vanta og skartaði nýjum háralit og allt.
Smartland hefur heimildir fyrir því að árshátíðargleðin hafi færst yfir á skemmtistaðinn Röntgen og hafi staðið yfir þangað til skemmtistaðurinn lokaði klukkan þrjú aðfaranótt sunnudagsins.