Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason fagnaði útkomu nýjustu bókar sinnar í gær í Eymundsson á Skólavörðustíg. Esther Kaliassa, kærasta Sölva, var að sjálfsögðu í boðinu en parið hnaut um hvort annað fyrr á þessu ári þegar hann var í Zanzibar í Afríku þaðan sem hún er. Hún var þó ekki einu gesturinn því Frosti Logason, Arnþrúður Karlsdóttir, Pétur Gunnlaugsson, Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Sólveig Þórarinsdóttir voru á meðal gesta.
Skuggar fjalla um örlagaríkan tíma í lífi hans þegar hann var sakaður um að hafa brotið á konum. Málunum var vísað frá.
„Í sjúkrabílnum hellist óraunveruleikatilfinning yfir mig. Viku áður hafði ég landað þremur nýjum samningum fyrir hlaðvarpið mitt, ferill minn hafði verið á betri stað en nokkru sinni og lífið virtist leika við mig. En hér er ég staddur liggjandi í sjúkrabíl á leiðinni inn á geðdeild. Lífið er viðkvæmt og það er stutt á milli hláturs og gráts.
Það er orðið dimmt, enda komið komið vel fram yfir miðnætti þegar við komum á áfangastað, sama stað og ég hafði komið á tveimur klukkustundum áður en af því að afgreiðslan var lokuð þurfti að kalla út sérfræðing og sjúkrabíl með tveimur mönnum til að koma mér aftur á byrjunarreit.
Það er skrýtin tilfinning að ganga inn á geðdeild Landspítalans. Klukkan er orðin það margt að ég verð ekki var við aðra sjúklinga og starfsfólkið talar lágum rómi til að vekja engan.
Mér er vísað rakleitt inn í herbergi þar sem ég er einn míns liðs og er beðinn að tæma alla hluti úr vösum og hafa ekkert með mér sem ég geti skaðað mig með. Svo er mér réttur spítalasloppur og gefin svefntafla um leið og mér er tjáð að ég sé á sjálfsvígsvakt og því verði athugað á korters fresti alla nóttina hvort ég sé í lagi.
Það er erfitt annað en að hugsa um hvað hafi fært mig hingað. Ég ræddi notkun geðlyfja í bók minni Á eigin skinni og veit að skömm yfir geðsjúkdómum og -lyfjum er meinsemd sem verður að uppræta. Þar sem ég ligg í rúminu, eftir að hafa verið úrskurðaður á sjálfsvígsvakt, leita hins vegar alls kyns neikvæðar niðurrifshugsanir á mig.
Er það virkilega þannig að fagfólk óttist að ég svipti mig lífi? Er það raunhæfur ótti, þótt ég geri mér kannski ekki grein fyrir því? Það er undarleg tilfinning að leggjast til svefns á þessum stað, en skjólið og hvíldin eru svo sannarlega kærkomin,“ segir í bókinni.