„Ef lágvaxinn karl er með hávaxinni konu er eins og samfélagið setji á hann aukna kröfu um að sanna sig á annan hátt. Brjálað sjálfstraust, fullkominn vöðvastæltur líkami, geggjaður persónuleiki, ofurmannlegt gáfnafar eða sjúkleg velgengni eru dæmi um þætti sem samfélagið myndi líklega samþykkja sem uppbót fyrir skort á hæð. Við tengjum hæð gjarnan við vald, mögulega vegna þess að fullorðnir eru hærri en börn og fullorðnir stjórna heiminum. Hávaxni gaurinn þarf því kannski ekki að sanna neitt því hann hefur hæðina og það dugar – eða þannig,“ segir Ragnheiður Eiríksdóttir í nýjustu grein sinni í MAN sem kom út í dag. Í greininni fer Ragnheiður, eða Ragga eins og hún er kölluð, yfir hæð á pörum.
„Allnokkrar rannsóknir, mestmegnis úr ranni sálfræðinnar, hafa leitt að því líkur að hávaxnir einstaklingar, sér í lagi karlmenn, njóti meiri velgengni á atvinnumarkaði, fái frekar stöðuhækkanir og séu betur launaðir en þeir lágvöxnu. Hæð fylgir oft sjálfstraust vegna inngróinna samfélagslegra viðhorfa og ef til vill er velgengnin frekar til komin vegna þess. Þetta er þó engan veginn algilt enda er heimurinn fullur af lágvöxnum karlmönnum sem eru að gera það nokkuð gott (reyndar misgott). Þór Saari, Finnur bróðir minn, Tom Cruise, Pútín, Stalín og Napóleón eru allt lágvaxnir gaurar sem njóta eða hafa notið velgengni í sínum misgáfulegu verkefnum og í mörgum íþróttum er oftar vænlegra að vera lítill vöðvakubbur en sláni.
Að kona segist ekki deita menn nema þeir séu lágmark 180 sentimetra háir er nokkurn veginn það sama og að karl sé engan veginn til í deit með konu nema brjóstahaldaraskálastærð hennar sé að lágmarki C.“