Jóhanna Erna Guðrúnardóttir er 18 ára og transgender. Hún kveðst vera ósköp venjuleg stelpa, systir, dóttir og vinkona, fyrir utan það að hún fæddist í röngum líkama.
Jóhanna hefur stundað það lengi að mála sig og klæða sem kvenmaður en nýverið steig hún fram sem transgender. Henni fannst þungu fargi af sér létt. „Það er tiltölulega stutt síðan ég opinberaði þetta og líf mitt hefur umturnast á frábæran hátt síðan þá.“ Jóhanna segist þó hafa þurft að safna kjarki í þónokkurn tíma áður en hún lét til skara skríða. „Ég var svolítið hrædd, ekki útaf fjölskyldu eða vinum enda á ég sterkt bakland. Ég var meira hrædd við hvernig samfélagið myndi taka þessu, taka mér.“
Finnur fyrir fordómum
„Já,“ segir Jóhanna hiklaust, spurð að því hvort hún finni fyrir fordómum í sinn garð. „Eins og flestallir minnihlutahópar í þessu samfélagi okkar gera. En maður reynir bara að láta það ekki á sig fá.“
Þrátt fyrir að Jóhanna reyni að láta fordóma annarra lítið á sig fá þá rekur hún sig reglulega á hindranir úti í hinu daglega lífi. „Ég fæ hvergi vinnu út af útliti mínu. Sem dæmi að nefna þá sótti ég um á KFC fyrir ekki svo löngu. Þau höfðu auglýst eftir starfsfólki og ég sæki um. Ég sendi þeim ferilsskrá og það virtist allt stefna í að ég fengi vinnu. Því næst var ég beðin um að senda mynd af mér, sem og ég gerði. Ég fæ þá svar til baka um að þau haldi að ég hafi sent vitlausa mynd. Ég svara því neitandi og þá fæ ég þau svör að það vanti ekkert starfsfólk.
Jóhanna vill að lokum minna fólk á að dæma aðra ekki eftir útliti. „Þú veist aldrei hvað býr að baki. Við trans fólkið erum bara fólk eins og allir aðrir, eini munurinn er sá að við þurfum að leiðrétta mistök af sem urðu af náttúrunnar hendi.“
Uppfært:
Jóhanna Erna undrar sig á viðbrögðum KFC við fréttinni um að hún ætti erfitt með að finna sér vinnu sökum útlits. Starfsmanna- og gæðastjóri KFC greindi frá því að umsókn Jóhönnu hafi ekki verið fullnægjandi og því hafi hún ekki verið boðuð í starfsviðtal. Jóhanna er þessu ósammála og segir að hún hafi fengið þau viðbrögð að umsóknin væri fullnægjandi fyrir utan ljósmynd sem vantaði.
„Af hverju var ég beðin um að senda mynd en mér svo tilkynnt að enga vinnu væri að fá um leið og ég hafði sent mynd af mér? Hefði ekki verið eðlilegra að segja mér að umsókn mín væri ekki fullunnin og þá hefði ég getað bætt úr því,“ segir Jóhanna sem kveðst hafa fengið ótal skilaboð eftir að fréttin um hana birtist frá fólki sem hefur sömu sögu og hún að segja. „Eins finnst mér skrítið að þau vilji fá mynd af mér en halda svo að ég hafi sent „vitlausa mynd“ án þess að minnast á að umsóknin væri ófullnægjandi.“