„Hver í ósköpunum fann upp á þessari vitleysu“

Jóna Ósk Pétursdóttir.
Jóna Ósk Pétursdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það er komið að áramótum. Aftur! Enn eitt árið liðið undir lok. Ég ætla alveg að viðurkenna það að ég er ekkert ein af þeim sem missi mig úr spenningi yfir áramótunum. Ætli því sé ekki frekar öfugt farið. Því þótt mér finnist nýtt upphaf alltaf spennandi þá eru aðrir hlutir í kringum áramót sem mér leiðast. Fyrst og fremst eru það öll þessi áramótaheit. Hvað er eiginlega málið með þau? Og hver í ósköpunum fann upp á þessari vitleysu,“ skrifar Jóna Ósk Pétursdóttir í nýjasta pistil sinn sem hún birti rétt fyrir áramót.

„Líklega er það nokkuð augljóst að ég strengi ekki áramótaheit. Aldrei. Þau virka ekki fyrir mig. Mér finnst svo miklu betra að taka þetta í smærri skrefum og setja mér minni markmið árið út í gegn. Bara ekki að heita einhverju um áramótin sjálf og svekkja mig svo á því seinna á árinu að hafa ekki staðið við heitið. Því að heita einhverju og að setja sér markmið er alls ekki það sama.“

„Um áramót lítum við gjarnan til baka yfir farinn veg. Hvert ár ber með sér sigra og ósigra – já maður er víst ekki alltaf í vinningsliðinu. En það er líka gott því án ósigranna væru sigrarnir ekki jafn sætir. Það er ósköp eðlilegt að horfa aðeins til baka á þessum tíma árs en mikilvægt er samt að festast ekki í því að horfa stanslaust í baksýnisspegilinn. Auðvitað gengur ekki alltaf allt upp hjá manni og flestir ef ekki allir verða fyrir vonbrigðum með eitthvað á hverju ári. Erfiðleikar banka upp á, dauðsföll, svik, mistök og fleira í þeim dúr gera lífið erfiðara. Þótt allt þetta taki á skiptir svo miklu máli að horfa fram á veginn og að hætta að upplifa það liðna aftur og aftur. Við upphaf nýs árs er því tilvalið að leggja allt slíkt til hliðar og horfa til framtíðar.“

Mikilvægt að fyrirgefa og horfa fram á við

„Með því að einblína á það liðna eitrum við framtíðina. Þeir sem festast í því taka áhættuna á að láta biturleikann ná tökum á sér. Er það ekki annars alveg morgunljóst að það er ekkert sem við getum gert til að breyta fortíðinni? Hins vegar getum við haft eitthvað með framtíðina að segja. Í stað þess að horfa aðeins á það sem ekki gekk upp á liðnu ári er skynsamlegt að sleppa tökunum og hrista vonbrigðin af sér. Þá er líka mikilvægt að fyrirgefa, þótt ekki sé nema fyrir eigin sálarheill svo hægt sé að horfa fram á við.“

„Hjá mér er þakklæti efst í huga við þessi áramót – þakklæti fyrir að fá að vera þáttakandi í lífinu. Að fá að taka þátt í öllu því sem lífið hefur upp á að bjóða eru nefnilega algjör forréttindi. Auðvitað veit ég ekkert frekar en aðrir hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir mig á því herrans ári 2015. Reyndar veit ég að ég mun ekki burðast með marga poka af eftirsjá, vonbrigðum og biturleika inn í nýja árið. Og ég veit líka að ég fæ að fagna nýjum áratug strax í byrjun árs og það er sko hreint ekki svo lítið.“

„Gleðilegt nýtt ár elsku landar mínir og megi nýja árið færa íslensku þjóðinni hamingju, gæfu og gleði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda