„Aldur er bara tala,“ er gjarnan sagt en það á varla við í öllum tilfellum. Á lífsleiðinni söfnum við reynslu og þroskumst og er þá ekki skemmtilegra að fara samferða einhverjum í gegnum það sem er á svipuðum stað?
Samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var við Emory-háskólann í Atlanta aukast líkur á að ástarsamband fólks endist ef aldursmunurinn er „hæfilegur“.
En hver er hæfilegur aldursmunur á milli fólk? Um 3.000 manns tóku þátt í rannsókninni og í ljós kom að því meiri sem aldurmunurinn er, því líklegra er að sambandið fari í vaskinn.
Ýmislegt kom í ljós í þessari merkilegu rannsókn, svo sem að um 18% meiri líkur eru á að fólk skilji er fimm ára aldursmunur er á því heldur en ef það væri jafnaldrar. Líkurnar jukust upp í 39% ef aldurmunurinn er um 10 ár. 20 árin þýða svo að líkurnar á skilnaði eru komnar upp í 95% samkvæmt niðurstöðunum sem greint var frá á vef Cosmopolitan.
Lokaniðurstaða rannsakenda er þá að eins árs munur er tilvalið og að þannig eru góðar líkur á að sambandið endist. Auðvitað er margt sem spilar inn í, svo sem, barneignir, hegðun og sameiginleg áhugamál svo dæmi séu tekin, en niðurstöðurnar eru engu að síður áhugaverðar.