Undirbýr að komast út í lífið á ný

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Líkt og ég nefndi í síðasta pistli langar mig að rita bloggpistla um hvernig gengur í endurhæfingunni og hvað er að brjótast um í kollinum á mér hér og nú,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Búinn að segja frá að janúar var strembinn og ég í leiðinlegri biðstöðu sem fór ekki vel í mig. Biðin stóð reyndar yfir fram í aðra viku af febrúar. Þá fóru hlutir að gerast! Ég var sem sagt að bíða eftir niðurstöðum úr ítarlegu stöðumati frá lækni, sálfræðingi og sjúkraþjálfara sem ég gekkst undir í janúar. Nýtt endurhæfingarplan myndi eðlilega byggjast á niðurstöðunum.

Var svo feginn og glaður þegar ráðgjafinn minn hafði samband. Við hittumst og ég fór vel yfir niðurstöðurnar sem voru ítarlegar. Tók töluvert á að lesa þær en í heild kom fátt mér beint á óvart. Ég var mest hissa á hversu meðvitaður ég hef verið um mína stöðu. Mér leið eins og ég væri að fá enn eina staðfestinguna að ég væri ekki að ímynda mér neitt. Það er alltaf léttir því það er auðvelt að detta í að efast. Sérstaklega á dimmu dögunum. Svo var fróðlegt að fá þrjú ólík sjónarhorn á stöðuna. Eitt þeirra var miðað á líkamann hjá sjúkraþjálfaranum. Það var meiriháttar að fá það mat. Ég hafði nefnilega verið hjá sjúkraþjálfara fyrir áramótin sem gerði ekkert gagn sem ég fékk þarna staðfest!

Aðeins um niðurstöður matsins. Ég var ánægður með að vita eða fá staðfest að ofsakvíði og -ótti, meðvirknin og þunglyndið væru afleiðingar af áföllum. Engin merki um undirliggjandi geðsjúkdóma. Þetta rímar við mína sögu og hvernig veikindin hófust sumarið 2013. Núna væri svo auðvelt að detta í þann pytt að blóta þeim verulega sem bera ábyrgð á því sem ég gekk í gegnum. Ekki síst áhrifin sem það hefur haft á mig og mitt líf í dag! Nei. Ég er ekki í þeim „blame game“ pakka. Hjálpar mér ekki neitt að baða mig sem fórnarlamb. Frekar hugsa ég jákvætt og þakka fyrir að það er þó ekki annað sem olli veikindunum og vita betur hvað ég þarf að gera til að ná styrk. Ofvirknin kom líka fram í niðurstöðunum en ég held því aðgreindu frá hinu. Ég veit ekkert hvort það er meðfætt eða tengist hinu. Breytir engu. Aðalatriðið er hvað ég geri því ég hef lifað í minni ofvirkni (ADHD) ómeðhöndlað allt mitt líf. Já ég var í heild sáttur við niðurstöður matsins enda kom vel fram hvað ég bý yfir mörgum styrkleikum líka. Ekki allt dauði og djöfull! Tekur enginn frá mér það sem ég hef áorkað í lífinu og mér sýnist að líkurnar séu ágætar á að ég geti bætt við þann árangur!

Ég og ráðgjafinn minn hjá Virk smíðuðum nýja áætlun. Hún er alveg frábær og var búin að finna úrræði handa mér sem hún leyfði mér að vega og meta. Þessi hjálp hjá Virk er mér ómetanleg og ég er svo ánægður með hvað ráðgjafinn hugsar vel um mig. Markmiðið er skýrt og ég ákvað að ráða því. Áætlunin nær fram í byrjun sumars, þá dreymir mig um að Fönix takið flugið! Jú, á vissan hátt óskhyggja en ég þrífst á markmiðum. Löngunin til að komast aftur út í reglulegt líf er svo sterk. Já, má ekki gleyma að fyrir ekki meira en 16 mánuðum var sú löngun engin!! Bara þessi breyting er stór mælikvarði á árangurinn í batanum. Úrræðin í nýja planinu eru blönduð. Fæ nýjan sjúkraþjálfara til að hjálpa mér af stað í hreyfingu á ný. Jesús Pétur hvað ég þrái það mikið. En sársaukinn vegna brjóskeyðingarinnar í mjóbakinu er ekki gleymdur. Reyndar logandi hræddur við það. Búinn að hitta nýja sjúkraþjálfarann og hún var fljót að skilja mig. Þá treysti ég henni. Saman munum við vinna í að komast yfir þá andlegu hindrun. Hjá sama sjúkraþjálfara er ég kominn á námskeið til að byggja upp orku og draga úr streitu. Þetta eru líkamsæfingar í bland við eins konar hugleiðslu. En, mér varð nú varla um sel þegar ég mætti í fyrsta skiptið. Stóð ég þar eini karlmaðurinn með 10 konum! Viðurkenni að mér dauðbrá og kom upp í mér lúmskur karlpungarembingur. Spurði sjúkraþjálfarann af hverju ég væri hér eini karlmaðurinn? Hún bara hló að mér. Ég skammaðist mín sem sýnir hvað það getur verið grunnt á því að detta í það viðhorf að hugsa að ég ætli ekki að taka þátt í kellingaleikfimi!! Nei, snýst ekki um það. Ég uni mér bara vel með þessum konum og þær virðast sáttar við mig!

Annað úrræði sem ég er byrjaður á og himinlifandi með er persónuleg markþjálfun með markþjálfa. Nákvæmlega það sem ég þarf til að undirbúa mig sem best við að stíga út í lífið á ný. Eins og ég hef sagt þá ætla ég að gera það sem mig langar en ekki það sem ég verð eða þarf. Hef gætt mín á að hugsa ekkert um það til að festast ekki í því. Núna er komið að þeim tímapunkti að velta því alvarlega fyrir sér. Fæ hjálp til að greina styrkleika og veikleika og finna út hvað ég vil taka mér fyrir hendur. Líka hvað er raunsætt. Það kom skýrt fram í matsskýrslunni að mikilvægt væri að ég myndi stíga varlega og í þrepum út á vinnumarkaðinn. Þetta verður brilljant.

Ég verð áfram í reglulegum viðtölum hjá sálfræðingi og þar er meiningin að vinna markvisst í áföllum. Það kom vel fram hjá sálfræðingnum í matinu að hann var ekki sammála mínum fyrrverandi sálfræðingi að það þjónaði ekki tilgangi að bora ofan í gömul mál. Eins og ég hef oft sagt þá er minnið mitt enn blokkerað. Það eitt hræðir mig því ég hreinlega get ekki boðið mér aftur upp á að lenda í þessum hræðilegum ofsakvíða- og panikköstum á ný. Þar sem ég var að upplifa sársauka áfallanna þó að ég hafi ekki séð það fyrir mér. Við munum því skoða þessi mál vel sem verður örugglega mjög erfitt en, eins og var sagt við mig, getur ekki verið erfiðara en það sem ég hef þegar gengið í gegnum!

Fyrir utan þessi úrræði held ég áfram að sinna mér vel á hverjum degi sem ég hef gert. Reynsla sl. mánaða hefur kennt mér að búa ekki til væntingar. Ég leyfi mér að vera bjartsýnn og jákvæður. Annars gengur þetta ekki! Er búinn að leggja allt of mikið á mig til að fara að taka óþarfa áhættu.

Þetta var febrúar í stuttu máli í lífi stráks sem þráir heitt að ná bata.

Góðar stundir... bæ þar til næst!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda