„Ég velti því stundum fyrir mér hvað hafi orðið um virðinguna og siðferði okkar þegar ég skoða algeng netsamskipti kynjanna í dag. Þegar við gátum farið að fela okkur svona vel á bakvið tölvuskjái hefur ýmislegt farið úrskeiðis þar að mínu mati,“ segir Linda Baldvinsdóttir markþjálfi í sínum nýjasta pistli:
Ég hef til dæmis sjálf oft orðið fyrir því að giftir menn vilji endilega spjalla við mig í netheimum en eru þó fljótir að láta sig hverfa þegar ég spyr hvort að konan þeirra fái ekki að sjá og fylgjast með því sem okkur fer þarna á milli. Ég hef einnig fengið oftar en mig langar til að muna eftir tilboð um að verða kynlífsleikfang hjá mönnum sem þekkja mig akkúrat ekki nokkurn skapaðan hlut. Og því miður er það ekki bara ég sem lendi í þessu, við vinkonurnar verðum allar fyrir þessu, giftar jafnt sem ógiftar.
Er þetta smart krakkar?
Hvað í ósköpunum er það sem fær gifta menn til að halda að þeir geti sent ókunnri konu beiðni um spjall á kynlífsnótum? Gera þeir sér enga grein fyrir þeirri óvirðingu sem felst í þessari beiðni bæði við þá konu sem haft er samband við og þá konu sem þeir eru giftir?
Og hvað fær menn til að bjóða upp á kynlíf í pósti án þess að þekkja eða vita nokkurn hlut um aðstæður eða siðferðismörk aðilans sem hann sendir póstana á? (Veit að þetta á við um bæði kynin svosem allt saman þó að ég tali útfrá sjónarhorni kvenna hér)
Eru þetta „markaðslögmálin“ sem gilda í dag? Giftir menn og konur sem þurfa spennulosun og ógiftir menn sem þurfa varla að vita hvaða nafn kynlífsleikfangið ber?
Hvað sem þetta flokkast undir þá er víst að þarna vantar virðingu og bara gömlu góðu almennu kurteisina.
Þegar ég hef fengið þessi líka fínu tilboð bendi ég vinsamlega á að kynlífsleikföng eru seld í Adam og Evu (ókeypis auglýsing í mínu boði) en að ég væri a.m.k ekki leikfang fyrir ókunnuga eða gifta menn úti í bæ.
En hvers vegna er þetta svona í dag? Eða hefur þetta kannski alltaf verið svona hjá ákveðnum hópum? Fer bara meira fyrir þessu í dag vegna netheimanna og veraldanna sem dvalið er í þar?
Ég veit svo sem ekkert hvers vegna þetta er svona, held þó að klám og kynlífsvæðing undanfarinna áratuga eigi þarna hlut að máli. Held einnig að það sé allt of auðvelt að fela sig og láta eftir sér ýmislegt á netinu þar sem lögmál raunveruleikans gilda ekki.
Allt er þetta þó hluti af væðingu þar sem tilfinningar koma hvergi við sögu og kynin eru hlutgerð (sérstaklega konur). Við vitum flest að hlutir eru til að nota en manneskjur ekki, þannig að þessi hlutgerving veldur því að við sjáum líklega þá sem eru á netinu ekki sem manneskjur af holdi og blóði né með sál og tilfinningar og því þarf ekki að sýna þeim kurteisi né pæla í siðferði gagnvart þeim.
En hvað veit ég svo sem, þetta eru bara mínar pælingar varðandi þetta en ekki stóri sannleikurinn um málið.
Ég held samt að ég hafi rétt fyrir mér með það að við þurfum að skoða betur hvers vegna þetta virðingaleysi er. Kannski þurfum við að kenna börnunum okkar betur strax frá fyrsta degi að bera virðingu fyrir sjálfum sér og hvert öðru í framkomu og orðum á netinu jafnt sem annarstaðar.
Þurfum kannski að gera þeim og okkur sjálfum betri grein fyrir því að manneskjur eru ekki hlutir til notkunar heldur sálir sem þarfnast fagurrar framkomu og kærleika sama hvort sem er á netinu eða annarstaðar.
En núna skal siðapostulinn hætta þessu tuði í bili en bið okkur þó um að skoða betur hvort að svona framkoma hæfi okkur hverju og einu, og bið okkur bara öll um að koma fram við hvert annað af virðingu og kurteisi hvort sem við erum stödd í raunheimum eða netheimum - munum að aðgát skal alltaf hafa í nærveru sálar.
Gleðilegt sumar elskurnar og takk fyrir veturinn!