Sigga Dögg er með BA-próf í sálfræði og meistaragráðu í kynfræði (sexology) frá Curtin-háskóla í Vestur-Ástralíu. Hún er vinsæll fyrirlesari þar sem hennar meginviðfangsefni er kynlíf. Við spurðum hana hvernig kynlífi megi búst við eftir fertugt.
Hún segir það að sjálfsögðu geta verið gott ef það er það sem þig langar. „Ertu í nýju sambandi, eða sama sambandinu sem þú ert búin að vera í lengi, með hvaða kyni ertu? Það skiptir máli. Kona með konu eru líklegri til að fá fullnægingu þegar þær stunda kynlíf með annarri konu frekar en með karli samkvæmt rannsóknum.“
Kona með konu
Hver er ástæðan fyrir því?
„Af því að kona með konu er boðið upp á kynlíf sem hentar píkunni betur.“
Spurð um þetta segir Sigga Dögg að það sé erfitt fyrir margar konur að fá fullnægingu í gegnum samfarir. „Þegar að tvær píkur hittast og það er ekki þessi samfarafókus, snípurinn er örvaður og allir næmu staðirnir sem konur eru með, þá er ánægjan mest sýnir tölfræðin okkur.“
Hvað segja tölurnar okkur um þetta?
„Konur fá fullnægingu í helming skiptanna sem þær stunda kynlíf með karlmanni, en í 9 af hverjum 10 skiptum sem stunda kynlíf með konu.“
Sigga Dögg leggur áherslu á að við konur séum ólíkar, en umhverfið reyni að setja okkur í ákveðið form. „Það er ólíkt hvað fólk vill fá út úr kynlífi. Fyrir suma táknar kynlíf nánd, fyrir aðra útrás, og sumir upplifa mikla hrifningu í gegnum kynlíf og [þar] fram eftir götunum. Þess vegna er svo mikilvægt að tala saman, spyrja hvort annað hvað kynlíf þýðir og ef áhuga vantar í samlífið er gott að athuga hvort það snúist um skort af ást eða eitthvað annað“
Kynlífslaus sambönd
Að sögn Siggu Daggar þróast ástin í samböndum þannig að lostinn dvínar. „Það er ekki slæmt að mínu mati, enda er ég ekki viss um að samfélagið okkar myndi virka ef við værum öll í losta. Hugmyndin um kynlíf víkkar út í langtímasamböndum, og ef við skilgreinum kynlíf einungis út frá samförum þá missum við af svo miklu sem fólk gerir saman, fyrir hvort annað.“
Sigga Dögg segir mörg pör hamingjusamt án kynlífs, ef það er eitthvað sem þau eru bæði sátt við. „Kynlífslaust samband er til og það er ekki alslæmt ef báðir aðilar eru sáttir við það. Áskoranir í kynlífi koma upp þegar það er kynlífsósamræmi á milli aðila í sambandi, þar eð, annar vill meira eða öðruvísi kynlíf en hinn. Kynlífsósamræmi er eitt algengasta umkvörtunarefni para þegar kemur að kynlífi,“ segir Sigga Dögg.
„Af þessum sökum er mikilvægt fyrir pör að skoða: Hvernig kynlíf viljum við eiga? Hversu oft viljum við stunda kynlíf? Fyrir hvern? Og svo fram eftir götunum.
Nánd er ekki fengin með kynlífinu einu saman. Og það er hægt að stunda kynlíf án þess að upplifa nánd,“ að stögn Siggu Daggar.
Að rækta hvort annað utan svefnherbergis
„Nánd má upplifa með spjalli, göngutúr, að gera eitthvað fyrir hvort annað, þegar við gerum eitthvað sem okkur finnst skemmtilegt að gera saman, þá upplifum við nánd,“ segir hún og ítrekar að náin pör rækta hvort annað utan svefnherbergis. „Þau eiga sameiginleg áhugamál og eru samrýnd.“
Sigga Dögg leggur áherslu á mikilvægi samningaviðræðna þegar kemur að kynlífi. „Við þurfum að semja, spyrja hvað langar þig? Við gerum þetta með nánast allt í lífinu, þegar við veljum mynd á Netflix, eða veljum mat að hafa í matinn o.fl. Af hverju gerum við þetta ekki meira þegar kemur að kynlífinu?“ spyr hún.
Fullnægingarbilið
Ástæðan fyrir því að Sigga Dögg vill leggja áherslu á samningatækni á þessu sviði er vegna þess að við þurfum að nota fleiri aðferðir, þá sér í lagi vegna þess sem hún kallar fullnægingarbil kvenna. „Kynlíf í því formi sem við stundum það í dag, er alls ekki að henta öllum konum. Við erum að gera óraunhæfar kröfur til kvenna, sem dæmi sýna sumar rannsóknir að allt niður í 7% kvenna upplifa fullnægingu í skyndikynnum. Sem er mjög lág tala á móti því sem karlar upplifa í þessu kynlífi. Við erum að stunda of einhæft kynlíf að mínu mati, eða að minnsta kosti ekki kynlíf sem virðist henta konum til að njóta.“
Þegar samtalið beinist að konum og kynlífi eftir fertugt segir Sigga Dögg margar konur vera að blómstra í kynlífinu á þessum árum. „Þær þekkja sig betur, vita hvað þær vilja, eru sumar dottnar úr barneign margar hverjar og því komnar í gegnum þetta streitutímabil sem fylgir því að vera með lítil börn. Þær eru að endurupplifa sjálfar sig, eru að endurmeta lífið og byrja að eignast sína kynveru.“
Talað um kynlíf í ísbíltúr
Áttu eitt gott ráð að lokum?
„Já, ég vil hvetja fólk til að tala betur saman um kynlíf, hvort heldur sem er í ísbíltúr eða úti í potti. Talið um hvað kynlíf þýðir fyrir ykkur, hvað ykkur langar að gera og fleira í þeim dúr. Mér persónulega finnst eðlilegt að í langtímasamböndum séum við að endurmeta samninga okkar reglulega, á fimm eða tíu ára fresti. Eru einhverjar forsendur brostnar? Hvernig verður framhaldið? Ekki vera óttaslegin við breytingar.“
Að lokum segir Sigga Dögg ein algengustu mistökin sem við gerum að túlka kynlíf einungis sem samfarir. „Þetta er að skemma fyrir mörgum pörum. Sumir karlar eiga erfitt með að fá stinningu, eru með frammistöðukvíða og margt sem spilar inn í. Kynlíf getur verið hlaðborð af úrvali, ef þú ert tilbúin/nn að horfa á það þannig.“