Elín Signý skráði sig undir dulnefni á vændissíðu þar sem íslenskir karlmenn komast í kynni við konur með það í huga að kaupa sér kynlíf. Hún vinnur nú að verkinu Should I be for sale? sem verður sýnt á listahátíðinni LungA á Seyðisfirði dagana 15. - 22. júlí. Verkinu er ætlað að vekja athygli á mansali og vændi á Íslandi. „Að skrá mig inn á þessa vændissíðu var hluti af rannsóknarvinnunni, til að skoða bæði framboð og eftirspurn á vændi á Íslandi, “ segir Elín Signý.
Verkið samanstendur af gínum sem Elín Signý hefur skrifað á staðreyndir um vændi og mansal á Íslandi. „Mér finnst mikilvægt að koma þessu málefni upp á yfirborðið því þetta er svo falinn iðnaður hérlendis og lítið í umræðunni. Ég tel að fólk gerir sér ekki grein fyrir því að á Íslandi eins og annarsstaðar eru konur sem skráðar eru á þessar síður oftar en ekki fórnarlömb mansals og þessar vefsíður stjórnað af fáum aðilum. Þetta er svo falið hérlendis því öll vændiskaup fara fram á internetinu.”
„Það er mjög auðvelt að finna vændiskonur í Reykjavík, það tók mig tíu mínútur að finna 952 vændiskonur á internetinu sem eru skráðar í Reykjavík. Ég bjó til aðgang klukkan 10 á miðvikudagsmorgni og fékk strax fyrirspurn frá íslenskum karlmönnum sem vildu hitta mig samdægurs, “ segir Elín.
Síðan á miðvikudaginn hefur hún fengið fjölda skilaboða frá íslenskum karlmönnum sem höfðu áhuga á að hitta hana. Aðgangur hennar að vændissíðunni staðfesti fyrir henni hversu mikil eftirspurn eftir vændi er á Íslandi frá íslenskum karlmönnum. Einnig kom henni á óvart hversu mikið framboð af vændiskonum er í Reykjavík og hversu stór í raun iðnaðurinn er.
Hún segir konurnar á síðunni flestar vera erlendis frá og mjög líklega fórnarlömb mansals. „Þetta eru oft konur sem eru blekktar í þessar aðstæður af fölskum forsendum og eru sendar milli landa til þess að þjónusta karlmenn, oftar en ekki fer lítill hluti í þeirra vasa því þeim er stjórnað af svokölluðum „pimpum“.“
Elín Signý skráði sig undir erlendu nafni á síðuna. Hún fann einnig þrjár aðrar síður sem bjóða upp á sömu þjónustu. Hún segir heimildir herma að mikið af vændi á Íslandi fer fram í Airbnb leiguíbúðum miðsvæðis og svokölluðum „kampavínsklúbbum“ í Reykjavík.
Elín Signý hefur áður framið svipaðan gjörning í Kaupmannahöfn í Danmörku en þá skrifaði hún einnig staðreyndir um mansal og vændi þarlendis á gínu sem hún kom fyrir utan aðallestarstöðina í Kaupmannahöfn. Svipað er uppi á teningnum hjá henni í þetta skiptið en hún hefur meðal annars unnið með Stígamótum til að finna staðreyndir um vændisiðnaðinn á Íslandi.
Á síðustu dögum hefur hún komið gínunum fyrir í miðborg Reykjavíkur og tekið viðtöl við vegfarendur um mansal og vændisiðnaðinn á Íslandi og erlendis. Leið hennar liggur nú á listahátíðina LungA á Seyðisfirði þar sem hún mun setja upp verkið sem saman stendur af gínunum og myndbandi af viðtölum við vegfarendur. „Ég tel að aukin meðvitund um siðferði í kringum vændi gæti spornað við þeim áhuga sem fyrirfinnst einkum hjá íslenskum karlmönnum, “ segir Elín.
Hún segir einnig að karlmenn séu yfirleitt kaupendur vændis, en hér á landi er ólöglegt að kaupa vændi en ekki að selja það. Hún gagnrýnir að þegar þessi mál eru til umfjöllunar í fjölmiðlum að þá sé nöfnum þeirra sem ákærðir eru fyrir kaup á vændi haldið leyndum, það sé ekki gert í nágrannalöndum okkar.