„Nú er mikið fjaðrafok yfir ummælum Öldu Karenar sem óheppilega sagði sem svo að það að segja sjálfum sér að maður sé nóg sé vörn gegn sjálfsvígum,“ segir Linda Baldvinsdóttir samskiptaráðgjafi og markþjálfi í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:
Raddirnar sem fóru af stað við ummæli hennar leiddu hana inn í Kastljós Ríkissjónvarpsins og þar byrjaði nú ballið fyrst.
Spyrillinn hafði ekki mikið fyrir því að fela aldursfordóma sína eða álit á „kultfræðunum“ sem hann telur líklega að árangursfræðin séu. Greinilegt var að hann hafði ekki mikið álit á stelpunni sem sat þarna og sagði einungis að við þyrftum bara að kenna fólki að það væri nægjanlegt eins og það er. Talaði fjálglega um þá sem kæmu sem söfnuð og hana þá að öllum líkindum sem trúarleiðtoga, lítið smart að mínu mati og lísti bæði vanþekkingu og fordómum.
Sálfræðingurinn kom aðeins meðvirknilega inn að mínu mati þegar hún sagði að það gætu verið einhverjir sem væru svo illa farnir að þeir gætu farið neðar við það eitt að heyra þetta. Mér finnst það svolítið svipað og það að einhver megi ekki gera eitthvað því það gæti orðið öðrum að falli (án þess að ég sé að gera lítið úr ummælunum sem fjaðrafokinu ollu frekar en Alda Karen sem baðst afsökunar á þeim).
Gott og blessað að skamma Öldu Karen fyrir að einfalda hlutina um of í tilliti til þess að það eru svo margir sem eiga um sárt að binda vegna sjálfsvíga sem því miður eru allt of mörg hér á landi. Og skiljanlegt að fræðingar ýmiss konar skuli vilja láta tala um þau mál með flóknari hætti og taka til þær rannsóknir, verkfæri og kunnáttu sem þeir búa yfir.
Nú en þá kemur minn skilningur á því sem hún Alda Karen var að segja ef ég hef skilið hana rétt. Það er að mörg andleg mein séu til komin vegna þess að hugsun okkar er skökk og hindrandi fyrir líf okkar og getur þannig leitt okkur á staði þar sem okkur líður hörmulega. Kannski svo hörmulega að eina leiðin sem hægt er að sjá fram á fyrir suma er að losa lífið við þá og að vera ekki lengur fyrir. Þá erum við svo sannarlega búin að segja okkur sjálfum að við séum ekki nóg og að lífstilgangur okkar sé þar með farinn.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að árangursfræðin hafa ekki öll svör við sjálfsvígum og í raun held ég að fáir ef nokkrir hafi öll svörin því miður.
Það sem mér finnst hins vegar aðdáunarvert er að ung stúlka nái til unga fólksins okkar með þeim hætti sem Alda Karen nær og við sem eldri erum og höfum siglt um mörg höf ættum að koma upp að hlið hennar og aðstoða hana með því að leggja okkar lóð á vogarskálina. Nýta þannig þetta „platform“ sem hún hefur skapað með karisma sínum til að ná til sem flestra sem þurfa á aðstoð að halda við að vinna sig frá andlegum meinum.
Ég vil hvetja okkur til að láta af þessu eilífa íslenska fyrirbrigði „öfundinni“ sem mér finnst ég svolítið finna lyktina af yfir velgengni Öldu Karenar sem er að gera ótrúlega góða hluti og er að kynna til sögunnar nýjustu tækni og upplýsingar sem við höfum varðandi starfsemi heilans okkar og hvernig má nýta þær til að aðstoða samborgara okkar.
Hættum að reyna að finna á henni höggstað, leggjumst þess í stað á eitt með að vinna gegn vanlíðan og öðrum andlegum meinum og koma bara sem flest saman með alla okkar dásamlegu þekkingu hvaðan sem hún er sprottin og bara hjálpa þeim sem á þurfa að halda.
Hvernig væri það að fylla Hörpuna af sálfræðingum, geðlæknum, markþjálfum, árangursfræðingum og fleirum sem lausnirnar hafa og virkilega láta til okkar taka í þessum efnum?
Ég veit ekki með þig – en ég er til hvenær sem er!