Kemur í veg fyrir ágreining við sambúðarslit með ákveðnu fyrirkomulagi

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir lögfræðingur hjá Lagastoð sérhæfir sig í að gera sambúðarsamninga fyrir fólk sem vill passa upp á réttindi sín en kýs að ganga ekki í hjónaband. Hún segir mikla eftirspurn eftir slíkum samningum. Sérstaklega ef fólk er að hefja aðra sambúð eftir sambúðarslit eða hjónaskilnað. 

„Reynslan hefur kennt okkur að margir kjósa óvígða sambúð í stað hjónabands. Á undanförnum árum hefur þess vegna orðið umtalsverð aukning á sambúðarslitum þar sem ágreiningur er um skiptingu eigna. Sambúð getur líka komið til síðar á lífsleiðinni. Þannig kýs eftirlifandi maki sem er kominn í nýtt samband oft sambúðarformið í stað þess að ganga aftur í hjónaband. Við höfum þess vegna lengi vitað af það væri þörf á sambúðarsamningum, bæði við upphaf sambúðar og sameiginleg eignakaup. 

Þörfin er líklega skýrust þegar foreldrar eða aðrir velunnarar ungs fólks leggja til fé til íbúðarkaupa. Með hækkandi fasteignaverði og stífari kröfum við gerð greiðslumats hefur það færst í aukana að foreldrar leggi fram hluta eða allt eigið fé til kaupanna. Þeir vilja þá tryggja að umræddir fjármunir annaðhvort tilheyri sínu barni eða það eigi rétt á endurgreiðslu. Þannig hafa sambúðarsamningar í ákveðnum tilvikum tengingu við fjárframlag frá foreldrum. Foreldrar vilja þess vegna oft „lána“ unga fólkinu dómgreind eða skynsemi og óska eftir að við gerum sambúðarsamning til að koma í veg fyrir framtíðarágreining,“ segir Sveinbjörg.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir lögmaður hjá Lagastoð.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir lögmaður hjá Lagastoð.

Hentar fólki sem fer í samband eftir skilnað

„Auk þeirra hópa sem ég nefndi hér að framan verður sífellt algengara að gerðir séu sambúðarsamningar í þeim tilvikum þar sem fólk er að fara í sitt annað eða eftir atvikum þriðja og fjórða samband og vill þá hafa fjármálin á hreinu. Þá geta sambúðarsamningar komið að gagni fyrir ekkjur eða ekkla sem sitja í óskiptu búi og vilja hefja samband eða sambúð með nýjum lífsförunauti án þess að skipta búi. 

Stjúpfjölskyldur leita einnig mikið til okkar varðandi sambúðarsamninga og erfðamál. Er óhætt er að fullyrða að í þeim tilvikum þar sem ekki er gagnkvæmur erfðaréttur eða sameiginlegir niðjar sé skynsamlegt að huga að þessum málum,“ segir hún. 

Þegar Sveinbjörg er spurð út í ferlið varðandi samningana segir hún þá svipaða og þegar fólk gerir kaupmála eða erfðaskrár. 

„Áður en við gerum sambúðarsamninga leitumst við eftir því að átta okkur á vilja fólksins. Þannig biðjum við til dæmis fólk sem er að kaupa sér saman fasteign að svara ákveðnum spurningum áður en það kemur á fundi með okkur eða eftir fyrsta fundinn. Svörin verða síðan að miklu leyti grundvöllur samningsins. Við vinnum svipað þegar um erfðaskrár, kaupmála og þess háttar er að ræða. Sambúðarsamninga er síðan hægt að nota sem grunn að kaupmálum,“ segir hún. 

Sveinbjörg segir að fólk á öllum aldri geti verið brennt eftir sambúðarslit og nefnir nokkur dæmi þar sem gott hefði verið ef fólk hefði verið með sambúðarsamning. 

„Í engu þeirra ágreiningsmála sem hafa farið fyrir dómstóla hefur legið fyrir sambúðarsamningur. Sá sem tapar slíku máli fyrir dómi getur því orðið af miklum fjármunum sem hefði mögulega mátt koma í veg fyrir með gerð sambúðarsamnings. 

Eitt er að tapa fjármunum, en annað er þegar börnum er beitt í þessum uppgjörsmálum og höfum við dæmi um til dæmis útilokun „afa og ömmu“ þar sem þau höfðu látið sambúðaraðila hafa fjármuni til að greiða eigið fé í fasteign. Þegar upp úr sambúðinni slitnaði taldi annar sambúðaraðilinn að um væri að ræða sína eign, en hinn að þetta væri þeirra sameiginlega eign. Þegar fasteignin var seld stóðu afinn og amman fast á því að fá það til baka sem þau höfðu greitt, án vaxta og verðtryggingar, og olli það „afa- og ömmu“ útilokun gagnvart barnabörnum með tilheyrandi sársauka,“ segir Sveinbjörg og bætir við:

„Einnig er staðan oft þannig að mikill eigna- og skuldamunur er á aðilum við upphaf sambúðar og erum við með dæmi þar sem sá eignaminni gekk út með margfalt meiri fjármuni en hann átti við upphaf sambúðar. Við sjáum stundum tregðu annars aðilans til að gera sambúðarsamning og er hinu sama oft fyrir að fara við að gera kaupmála. 

Í allri umræði um fjármálalæsi, fjárfestingar og mikilvægi líf- og sjúkdómatrygginga fyrir t.d. ungt fólk og foreldra má segja að ekkert sé eins mikilvægt eins og að huga að hvernig eignir eru skráðar, hvernig þeim er viðhaldið og hvernig þær skiptast ef eitthvað óvænt gerist. Svo má spyrja sig hvort það sé talið „óvænt“ að sambönd endi,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda