70 ára og finnur til einmanaleika - hvað er til ráða?

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda Smartlands.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda Smartlands.

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá 70 ára konu sem er einmana og leitar ráða. 

Komdu sæl Tinna Rut. 

Ég er kona 73 ára en sýnist vera um 50 ára. Í kringum mig eru flestir látnir og ég er svo einmanna og á enga vini eða vinkonur. Mér finnst þetta slæmt ástand því ég var mjög vinsæl á meðal fólks. Var alltaf hlæjandi og var dugleg að hitta vini mína, ýmist heima eða á kaffihúsi. Öllu jöfnu leiðist mér ekki, en ég finn fyrir einmanaleika. Mig langar í vini og er búin að reyna ýmislegt en ekkert gengur. Hvað er til ráða? Takk fyrir að lesa þetta.

Kveðja,

HM

Sæl.  

Aldur þinn þarf alls ekki að hafa áhrif á það hvort þú farir út, hittir fólk eða gerir eitthvað skemmtilegt. Félagsskapur er okkur flestum nauðsynlegur og alltaf er gott að hafa einhver áhugamál. Ég mæli með því að þú ígrundir hverju þú hefur áhuga á og hvaða ánægjulegu athafnir veita þér vellíðan. Nú veit ég ekki hvar þú ert stödd á landinu en t.d. ef þú skoðar „Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni“ á netinu þá kemur upp allskyns félagsstörf eins og hreyfing, tónlist, námskeið/klúbbar og fræðslufundir.

Ef þú ert ekki nú þegar að fylgjast með félagi eldri borgara í þínu sveitarfélagi þá myndi ég hvetja þig til þess að skoða það. Einnig er allskyns annað sem þú getur prófað eins og kór, kvenfélagsstörf, vatnsleikfimi svo ég nefni eitthvað. Allt þetta sem ég hef nefnt er kjörinn vettvangur til þess að hitta og kynnast nýju fólki. Hvet þig einnig til þess að hafa frumkvæði af samskiptum við annað fólk í kringum þig sem þér líður vel með og finnst gaman að hitta. Bjóddu þeim í kaffi, stingdu upp á leikhúsferð eða öðru sem þér finnst gaman að gera. Mér heyrist þú vera félagslynd og lífsglöð kona að eðlisfari sem er frábær eiginleiki að hafa og hvet ég þig til þess að nýta þann styrkleika og leyfa öðrum að njóta þess að kynnast þér.

Gangi þér sem allra best!

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál