Óvænt uppákoma við undirbúning

Erna Ýr starfar sem blaðamaður á mbl.is.
Erna Ýr starfar sem blaðamaður á mbl.is. Samsett mynd

Fermingar eru í fullum gangi og er að mörgu að huga varðandi fermingarundirbúning og fermingarveislur. Eins og með svo margt annað skiptir undirbúningurinn gríðarlegu máli enda merkileg stund í lífi ungmenna og fjölskyldna þeirra. 

Ég er fyrsta barn foreldra minna og var því fyrst þeirra til að fermast. Ég hugsa með gleði til fermingardagsins míns. Það eftirminnilegasta er þó án efa dagurinn fyrir sjálfan fermingardaginn. 

Undirbúningurinn gekk hratt og vel fyrir sig, nema kannski leitin að réttu fermingarfötunum. Það reyndist heljarinnar verkefni fyrir unga stúlku í yfirþyngd, en fötin fundust á endanum. Ég klæddist svörtum buxum, myntugrænum hlýrakjól og einhvers konar grænleitu neti. Það er auðvitað hálfómögulegt að útskýra aldamótatískuna, en ég fermdist í Breiðholtskirkju, sunnudaginn 16. apríl árið 2000. Ógleymanlegt fermingarár.

Skreytingar og skrýtin lykt

Föðuramma mín heitin, nafna og afmælis- og sálufélagi, Erna Guðjónsdóttir, tók að sér að töfra fram dýrindis veitingar. Vínrautt kerti með gylltum stöfum, servíettur í stíl og dúkar voru keyptir í Blómavali og góð vinkona föður míns útvegaði okkur sal á fyrstu hæð í þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara við Skúlagötu. Salurinn var heimilislegur og hentaði fullkomlega fyrir þann fjölda sem við áttum von á.

Laugardagurinn var skreytingardagur. Ég, að farast úr spenningi, hélt af stað ásamt foreldrum mínum, systrum og föðurömmu stuttu eftir hádegi til að skreyta salinn og koma hlutum á sinn stað. Bíllinn var pakkfullur af kaffi, gosflöskum, tertum og skrauti. Það fóru af stað líflegar umræður um fermingardaginn og fengu allir úthlutað verkefni.

Þegar á áfangastað var komið var bílnum lagt fyrir utan og það fyrsta sem mætti okkur var svakalega sterk lykt. Ég gat vart dregið andann og áttaði mig ekki alveg á því hvað þetta var í fyrstu.

Það kom fljótt í ljós að mikil matarveisla hafði verið haldin fyrir íbúa í hádeginu og var boðið upp á tindabikkju, hákarl og annað íslenskt góðgæti sem fær tárin til að renna. Lyktin fannst alls staðar, salurinn angaði. Það var ekki líft þarna inni.

„Fermingarfötin voru nánast í þema við ólyktina. Ég er nánast …
„Fermingarfötin voru nánast í þema við ólyktina. Ég er nánast klædd í fiskinet.“ Ljósmynd/Aðsend

Við tók smá panik

Atburðarásin sem tók við var hröð. Allir gluggar voru opnaðir upp á gátt. Við rukum af stað og keyptum ýmiss konar hreinsiefni, ilmkerti og sprey til að vinna á lyktinni í von um að geta boðið gestum inn í salarrýmið daginn eftir.

Til þess að gera langa sögu stutta þá tókst okkur að losna við lyktina, en það kostaði mikla vinnu, blóð, svita og skötutár.

Fermingardagurinn var sólríkur og gleðilegur. Enginn kvartaði yfir skötufýlu. Veislugestir skemmtu sér vel, hlógu dátt að ólyktarsögunni og kláruðu hvern einasta gómsæta matarbita sem í boði var.

Já, aldrei má vanmeta hið óvænta!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál