Söngfuglinn Cheryl Cole hugði á mikla landvinninga í Bandaríkjunum og átti dómarasæti í bandarísku útgáfu X-Factor þáttanna, með Simon Cowell í fararbroddi að marka upphaf þeirra. Auk þess var hún búin að ráða Will.I.Am sem umboðsmann sinn. Með þáttinn og umboðsmanninn í farteskinu áttu henni að vera allir vegir færir en hvað gerðist?
Í vikunni bárust svo fréttir að því að yfirmenn Fox sjónvarpsstöðvarinnar, þar sem X-Factor þættirnir verða sýndir hefðu verið lítt hrifnir af frammistöðu Cheryl og hún í kjölfarið rekin. Komu þessar fregnir flatt upp á marga enda legið í loftinu svo mánuðum skipti að Cheryl yrði einn af dómurum þáttarins, auk þess sem Simon Cowell var sagður áfjáður í að fá hana í þáttinn.
Nú þegar ljóst er að ekkert verður af þeim áætlunum hafa margir spurt sig hvað fór úrskeiðis og hafa nokkrar ástæður verið nefndar.
Þeirra fyrst er Cheryl sjálf. Er hún sögð hafa verið langt niðri vegna skilnaðar síns við Ashley Cole og því hafi hún ekki verið reiðubúin að leggja sig alla fram. Hafi hún hafnað boði um talþjálfun en það þótti verulegt vandamál hvað hún talaði með sterkum hreim. Eins hafi hún mætt fyrsta daginn í dressi sem ekki þótti mjög smart og var í kjölfarið boðin aðstoð stíllista sem hún hafnaði. Að auki hafi hún ekkert gert til að kynna sig í Bandaríkjunum. Hafi hún til að mynda ekki mætt á Grammy-verðlaunahátíðina né á Coachella tónlistarhátíðina. Þess í stað hafi hún lokað sig inn á hótelherbergi og borðað megrunarkex en hún átti jafnframt að grenna sig eins og Smartland greindi frá í gær.
Auk þess er talað um að Simon Cowell hafi gert stór misstök þegar að hann réði bæði Cheryl og Paulu Abdul sem dómara. Stíll þeirra beggja hafi einkennst af því að grínast í Simon og það hafi einfaldlega ekki gengið upp að hafa tvo dómara með svipaðan stíl. Segja gárungarnir að það sýni algjöran asnaskap Cowells að hann hafi í fyrsta lagi ekki hugsað út í þetta og hvað þá að ekki hafi verið fyrir lifandis löngu búið að ganga frá ráðningu dómara.
Hvað sem því líður er ljóst að landvinningar Cheryl Cole verða ekki á næstunni eftir grimmilega meðferð í Bandaríkjunum en sem betur fer nýtur hún mikilla vinsælda í heimalandinu þar sem hún er dýrkuð og dáð.