Undanfarin ár hafa verið allt annað en auðveld hjá hinni suður-afrísku Charlene Wittstock sem mun ganga að eiga Prins Albert af Mónakó um helgina.
Charlene er 33 ára gömul sunddrottning sem fæddist í Zimbabwe árið 1978. Faðir hennar er sölustjóri en móðir hennar er sundkennari. Það varð snemma ljóst að stúlkan var mikill íþróttagarpur og átta ára gömul var hún farin að æfa baki brotnu í marga klukkustundir á dag.
Fjölskyldan fluttist til Suður-Afríku og komst hún fljótt í sundlandsliðið og keppti með því, allt þar til hún meiddist á ökla árið 2008.
Hún og Albert kynntust árið 2001 þegar hún keppti á sundmóti í Mónakó. Hefur hún játað að hafa strax fundið fyrir tengslum við Albert án þess að gera almennilega útskýrt hvað var í gangi.
„Þegar ég hitti Albert fyrst leið mér eins og þetta ætti að gerast. Ég hef áður sagst hafa kiknað í hnjánum og það er alveg rétt að mörgu leiti. Ég vissi samstundis að hann var sá eini rétti.“
Prinsinn var þá 43 ára gamall en hún einungis 22 ára. Hún hefur jafnframt sagt að þrátt fyrir að með þeim tækjust góð kynni og hún hafi vitað að hann væri „sá rétti“ þá hafi tíminn ekki verið réttur. Hún hafi verið ung og upptekin af íþrótt sinni.
Ástarsamband við einn eftirsóttasta piparsvein heims hafi verið fjarri huga hennar. Þau héldu þó alltaf sambandi og sáust svo fyrst opinberlega saman árið 2006 á vetrarólympíuleikunum.
Árið 2008 meiddist hún á ökla og lagði sundgleraugun á hilluna í kjölfarið. Albert bauð henni þá að flytja til sín og hún ákvað að slá til. Við tók erfiður tími þar sem hún var harðlega gagnrýnd og mætti miklu mótlæti.
Flestir Mónakóbúar áttu sér þann draum að Albert næði sér í aðalborinn kaþólikka og var Charlene allt annað en þeir áttu að venjast. Segir hún að húmor hennar og hugsanaháttur hafi alls ekki fallið í góðan jarðveg. Auk þess er hún yfirmáta hreinskilin sem að kom við kaunin á ýmsum.
Haft hefur verið eftir henni að öll þessi ár þar sem hún gerði ekkert annað en að bíða eftir bónorðinu hafi einungis verið tvær manneskjur í gervöllu furstadæminu sem hún taldi til vina sinna.
Charlene þykir mjög glæsileg. Hún er hávaxin og grönn og minnir um margt á móður Alberts, sjálfa Grace Kelly. Hún þykir hafa klassískan stíl, koma vel fyrir og ætti því að verða landi og þjóð til sóma í komandi framtíð.