Hún þykir ljómi annarra kvenna enda einstaklega hæfileikarík og fögur. Eftir áratugalangan feril er söng- og leikkonan Dolly Parton þó hvergi nærri af baki dottinn og segist muni halda áfram að halda sér til svo lengi sem hún hafi þrek til - og pening til að leggjast undir hnífinn.
„Ég mála mig á hverjum degi, jafnvel þótt ég sé bara heima. Það skiptir mig miklu máli að líta vel út fyrir eiginmann minn. Ég sleppi kannski hárkollunum heima en hárið á mér er eins á litinn og ég skelli því bara upp í teygju. Og meðan ég hef efni á að leggjast undir hnífinn mun ég gera það. Ef ég sé að eitthvað er farið að síga vil ég láta hífa það upp,“ segir Dolly sem segir jafnframt að lýtaaðgerðir láti henni líða betur en hún gæti þess þó að fara ekki yfir strikið.
„Það eru nokkur ár síðan ég lét gera eitthvað mikið en ég hef mikið notað alls kyns fyllingar og bótox. Ég vil alls ekki vera of gervileg. Guð skapaði lýtalækna af ástæðu - og það er óþarfi að láta þá svelta.“