Hún er þekkt fyrir ljóst hárið, mikla andlitsmálningu, ógnarstóran barm - auk þess sem hún fer sjaldnast út úr húsi án þess að vera klædd í mínípils og pinnahæla.
Þrátt fyrir þetta óvirðulega útlit er Dolly Parton ekki einungis ein dáðasta söngkona veraldar heldur einnig sú sem hefur vegnað hvað best. Í dag eru eignir Dolly metnar á litlar 600 milljónir dollara en sjálf segir hún að óvandað útlitið hafi kannski valdið því að fólk tæki hana ekki alvarlega en svona klæði hún sig fyrir eiginmann sinn til 45 ára og hann elski það.
Eiginmaður hennar, Carl Dean, er um margt merkileg persóna. Sárafáar myndir eru til af þeim hjónum og hann sést aldrei opinberlega með henni. Sjálf segir Dolly að honum finnist best að vera heima í friði og ró og að hún hafi aldrei verið honum ótrú þrátt fyrir að hún elski karlmenn og hafi verið orðuð við marga nafntogaða menn á borð við Sylvester Stallone og Burt Reynolds.
„Karlmenn eru veikleiki minn. Lágvaxnir, hávaxnir, sköllóttir eða horaðir - ég hef verið skotin í ólíklegustu mönnum en Carl veit að ég kem alltaf heim til hans og að ég er ekki að sofa hjá neinum þessara manna. Ég er bara að daðra og skemmta mér.“
Leiðir Carls og Dollyar lágu saman fyrsta daginn hennar í Nashville þegar hún mætti þangað bláfátæk til að reyna fyrir sér. Þau hafa verið saman síðan.
Fertugasta og fyrsta plata Dollyar, Better Days, er væntanleg í verslanir á næstunni.