„Ég verð að viðurkenna að ég var lengi í skápnum með kántrí-áhugann og hélt að það þætti ekki svalt að hlusta á þá tónlist,“ segir Selma Björnsdóttir leikari, leikstjóri og mögulega upprennandi kántrí-stjarna. Selma treður upp á Café Rosenberg á sunnudagskvöld með einvalaliði tónlistarmanna, Miðnæturkúrekunum, og flytur þar sígilda kántríslagara og svo lög af plötu sem hún gaf út fyrir síðustu jól.
„Platan heitir Alla leið til Texas og inniheldur mín uppáhaldslög úr kántríinu. Þetta er ástríða sem kviknaði þegar ég var lítil stelpa, og systir mín eignaðist kassettu með Dolly Parton. Ég féll kylliflöt fyrir Dolly, sjö ára gömul, og lærði fljótlega öll lögin á spólunni utanað.“
Kántrítónlistin snertir einhvern djúpan streng hjá Selmu. „Fyrir utan fallegar melódíurnar þá fjalla textarnir um hvunndagshetjur og ástir, sigra og sorgir, og sungið á mjög einlægan og stundum barnslegan hátt. Það er fullkomið tilgerðarleysi í kántrí.“
Að því sögðu segir Selma að ekki verði dansaður línudans á sviðinu á sunnudaginn. „Bassaleikarinn okkar er með mikið ofnæmi gegn línudansi og hefur hótað að hætta í bandinu ef ég stíg svo mikið sem eitt dansspor,“ útskýrir hún og hlær.
Selma er afkastamikil í leiklistinni að vanda. Hún tók nýverið við af Nínu Dögg Filippusdóttur í verkinu Húsmóðurinni sem sýnt er í Borgarleikhúsinu, en Nína Dögg þurfti frá að hverfa vegna barneigna. Selma kom fram í sýningum í júní og verkið verður svo aftur sýnt í nokkur skipti í Hofi í september. Selma segir þetta nýja hlutverk hiklaust fara ofarlega á afrekalistann. „Það er ekkert grín að hoppa inn í sýningu eins og þessa, þar sem mikið gengur á og þarf að skipta um búninga 20 sinnum á einu kvöldi. Síðan þarf að túlka þrjár kvenpersónur sem eru uppi á ólíkum tímum, ólíkar í útliti og hafa ólíkan talanda,“ segir hún. „Þetta er líka í fyrsta skipti sem ég leik í farsa, og krefjandi leiklistarform. Hlutverkið kallar á mikla hlustun og nákvæmar tímasetningar.“
Í gegnum tíðina hefur Selma léð mörgum stórum sögupersónum rödd sína. „Eftirminnilegasta hlutverkið var rödd Megara í teiknimyndinni um Herkúles. Þetta var mitt fyrsta talsetningarverkefni og mikilvægt hlutverk í stórri Disneymynd með öllu tilheyrandi,“ segir hún. „Svo kom það hins vegar flatt upp á mig þegar ég var fengin til að lesa rödd Ömmu Krumpu í Rauðhettu Weinsteinbræðra. Ég þótti passa svona vel sem sjötíu ára kerling verandi sjálf rétt komin yfir þrítugt. Ég var einmitt að talsetja sömu persónu núna um daginn fyrir Hoodwinked 2 sem bráðum kemur út.“