Selma kolféll fyrir Dolly Parton sjö ára gömul

Selma Björnsdóttir er á fullu í kántrýinu þessa dagana.
Selma Björnsdóttir er á fullu í kántrýinu þessa dagana. Eggert Jóhannesson

„Ég verð að viðurkenna að ég var lengi í skápnum með kántrí-áhugann og hélt að það þætti ekki svalt að hlusta á þá tónlist,“ segir Selma Björnsdóttir leikari, leikstjóri og mögulega upprennandi kántrí-stjarna. Selma treður upp á Café Rosenberg á sunnudagskvöld með einvalaliði tónlistarmanna, Miðnæturkúrekunum, og flytur þar sígilda kántríslagara og svo lög af plötu sem hún gaf út fyrir síðustu jól.

„Platan heitir Alla leið til Texas og inniheldur mín uppáhaldslög úr kántríinu. Þetta er ástríða sem kviknaði þegar ég var lítil stelpa, og systir mín eignaðist kassettu með Dolly Parton. Ég féll kylliflöt fyrir Dolly, sjö ára gömul, og lærði fljótlega öll lögin á spólunni utanað.“

Kántrítónlistin snertir einhvern djúpan streng hjá Selmu. „Fyrir utan fallegar melódíurnar þá fjalla textarnir um hvunndagshetjur og ástir, sigra og sorgir, og sungið á mjög einlægan og stundum barnslegan hátt. Það er fullkomið tilgerðarleysi í kántrí.“

Cash ekki kúreki?

Selma gerir sér samt alveg grein fyrir því að mörgum þykir kántrí ekki sérlega spennandi tónlistarstefna. „Kántrítónlist verður fyrir ósanngjörnum fordómum, og fólk vill jafnvel ekki viðurkenna það fyrir sjálfu sér að hafa gaman af kántrí. Maður heyrir t.d. menn tala um hvað þeir eru miklir Johnny Cash aðdáendur en segjast í sömu andrá ekki fíla kántrítónlist. Sama má segja um marga unnendur söngva Presleys og jafnvel sum lög Beyonce. Kántríið læðir sér inn í ýmsar tónlistarstefnur og snýst ekki bara um Willie Nelson.“

Að því sögðu segir Selma að ekki verði dansaður línudans á sviðinu á sunnudaginn. „Bassaleikarinn okkar er með mikið ofnæmi gegn línudansi og hefur hótað að hætta í bandinu ef ég stíg svo mikið sem eitt dansspor,“ útskýrir hún og hlær.

Selma er afkastamikil í leiklistinni að vanda. Hún tók nýverið við af Nínu Dögg Filippusdóttur í verkinu Húsmóðurinni sem sýnt er í Borgarleikhúsinu, en Nína Dögg þurfti frá að hverfa vegna barneigna. Selma kom fram í sýningum í júní og verkið verður svo aftur sýnt í nokkur skipti í Hofi í september. Selma segir þetta nýja hlutverk hiklaust fara ofarlega á afrekalistann. „Það er ekkert grín að hoppa inn í sýningu eins og þessa, þar sem mikið gengur á og þarf að skipta um búninga 20 sinnum á einu kvöldi. Síðan þarf að túlka þrjár kvenpersónur sem eru uppi á ólíkum tímum, ólíkar í útliti og hafa ólíkan talanda,“ segir hún. „Þetta er líka í fyrsta skipti sem ég leik í farsa, og krefjandi leiklistarform. Hlutverkið kallar á mikla hlustun og nákvæmar tímasetningar.“

Stórvirki á leiðinni

Í desember mun Selma svo halda til Lundúna til að aðstoða Gísla Örn Garðarsson við leikstjórn hans á verkinu Heart of Robin Hood í sjálfu Konunglega Shakespeareleikhúsinu. Ekki lítill heiður að setja upp jólasýningu þessa virta leikhúss. Í janúar hefjast síðan sýningar á Vesalingunum sem Selma leikstýrir. Söngleikurinn sívinsæli hefur ekki verið settur á fjalirnar í íslensku atvinnuleikhúsi í röska tvo áratugi og Selma segir um mjög stórt verkefni að ræða þar sem ekkert verður til sparað. „Þessi uppfærsla verður verkinu trú, og við sjáum enga ástæðu til að gera tilraunir með breytt sögusvið eða sögutíma. Enda er þetta verk sem er tímalaust, einn alvinsælasti söngleikur í heimi sem fæst við magnþrungið efni eins og hlutskipti okkar minnstu meðbræðra, mannlegar fórnir og óréttlæti.“

Hefur yndi af vondum kvenhetjum

Selma settist nýverið í leikstjórastólinn í talsetningarveri Myndforms. Þar stýrir hún talsetningum á teiknimyndum en hún segir talsetningarvinnuna geta verið mjög gefandi. „Margir virðast eiga þann draum að talsetja myndir, og karlar alveg sérstaklega áhugasamir um þetta starf. Sjálfri finnst mér skemmtilegast að lesa raddir persóna sem eru eins langt frá mér sjálfri og hugsast getur, og hef yndi af hlutverki vondu kvenhetjunnar.“

Í gegnum tíðina hefur Selma léð mörgum stórum sögupersónum rödd sína. „Eftirminnilegasta hlutverkið var rödd Megara í teiknimyndinni um Herkúles. Þetta var mitt fyrsta talsetningarverkefni og mikilvægt hlutverk í stórri Disneymynd með öllu tilheyrandi,“ segir hún. „Svo kom það hins vegar flatt upp á mig þegar ég var fengin til að lesa rödd Ömmu Krumpu í Rauðhettu Weinsteinbræðra. Ég þótti passa svona vel sem sjötíu ára kerling verandi sjálf rétt komin yfir þrítugt. Ég var einmitt að talsetja sömu persónu núna um daginn fyrir Hoodwinked 2 sem bráðum kemur út.“

Selma Björnsdóttir.
Selma Björnsdóttir. Eggert Jóhannesson
Selma Björnsdóttir.
Selma Björnsdóttir. Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda