„Það skiptir gríðarlegu máli fyrir mig að halda tengslum við landsbyggðina. Það er á henni sem ferill minn er að stórum hluta byggður, og nær þar til löngu áður en ég byrjaði að spila sem tónlistarmaður því ég þvældist líka um sem verkamaður,“ segir Bubbi Morthens sem verður á tónleikaferðalagi um landið fram í október. Hann segir þennan landsbyggðartúr m.a. farinn til að styrkja sambandið við ræturnar.
Á tónleikunum ætlar Bubbi að spila efni af nýju plötunni, Ég trúi á þig, og svo úrval af vinsælustu eldri lögunum. „Ég mun líka spila alveg glænýtt efni sem ekki hefur heyrst áður og er töluvert pólitískara en það sem er á plötunni.“
Meðal þessara splunkunýju laga nefnir Bubbi verk eins og „Uppslitnar rætur“ sem fjallar um hlutskipti flóttafólks, og svo „Þorpið“ sem hann segir nokkurs konar framhald af vangaveltunum í laginu „Aldrei fór ég suður“. „Það lag fjallar um mann sem ákveður að halda kyrru fyrir, þó að kvótakerfið sé búið að drepa bæjarfélagið, allt að lokast og drabbast niður.“
Bubbi er allt annað en ánægður með árangur ráðamanna þjóðarinnar síðastliðin ár.
„Vandamálið er að þeir sem stjórna – þeirra sýn er mótuð á gömlum tíma. Vinstri grænir eru ekkert annað en Alþýðubandalagið. Harði kjarninn úr Alþýðubandalaginu hefur komist til valda en reynist þá ekki hafa nein önnur ráð en það sem þetta fólk er alið upp við, sem er eitthvað sem hentar ekki í því ástandi sem Ísland er komið í. Hin hliðin er svo ljósrauða kratadeildin úr Alþýðubandalaginu sem varð að Samfylkingunni, og hugmyndafræðin er torfkofar. Þetta fólk burðast um með torfkofa og nær ekki að hugsa út fyrir þann ramma,“ segir Bubbi.
„Bankarnir hafa sigrað,“ segir hann. „Bankarnir hafa sigrað, því þeir fengu skotleyfi hjá þessari vinstristjórn. Bankarnir voru varðir með kjafti og klóm og skipt um kennitölu með alveg glæpsamlega glúrnum aðferðum. Núna standa þessir sömu bankar með ofsagróða í höndunum og með heimilin í landinu í sigtinu.“
Bubbi kannast vel við þá þreytu og uppgjöf sem virðist einkenna samfélagið núna þremur árum eftir bankahrun. „Er nema von að fólk spyrji til hvers við stöndum í þessu? Til hvers að búa hér í skuldafangelsi næstu 25 árin? Er nema von að fólk flýi úr landi í þúsundatali til að geta átt sér einhverja framtíð?“ spyr hann. „Hvaða framtíð er fyrir ungt fólk á Íslandi og hvað bíður okkar þegar bankarnir munu eiga börnin okkar og barnabörnin? Allt er þetta gert með samþykki vinstristjórnarinnar. Auðvitað áttu fyrri ríkisstjórnir sinn þátt í því hvernig fór, og gleymum því heldur ekki að enn situr á þingi, og í ráðherrastólum, fólk sem stóð vaktina fram að hruni. En þessi stjórn sem núna situr fékk tækifæri til að rétta í raun og veru hlut heimilanna, en kaus frekar að verja bankana og stærstu fyrirtækin. Eflaust fer þessi sama ríkisstjórn létt með að halda því fram, hvað hún hafi gert gríðarlega mikið fyrir þjóðina, en þeir sem liggja undir hruninu verða ekkert varir við að verið sé að lyfta grjótinu ofan af þeim. Þeim er bara rétt vatnsflaska í gegnum sprungu og sagt að láta fara vel um sig.“
Þó Bubba sé mikið niðri fyrir segir hann að því fari fjarri að Ísland eigi enga von, og segir hann að enn sé hægt að gera mikið til að bæta þann skaða sem orðið hefur, og fyrirbyggja annað eins. „Krónan er í rauninni hengingaról Íslands og ekki nema bara 70-80 fjölskyldur sem græða hreint út sagt á krónunni. Það er fólkið sem á kvótann og fiskinn í hafinu. En krónan er ógæfa Íslands og við verðum að fá annan gjaldmiðil. Þar liggur sterkasta von íslenskrar alþýðu.“
Um leið og Bubbi hellir úr skálum reiði sinnar hvetur hann landann til dáða. Hann segir að fólk geti sótt mikinn styrk í ættingja og vini, og eins með því að gleyma ekki því jákvæða í lífinu. „Sjáðu til: Það er gríðarlegt áfall að missa húsið sitt og ég tala nú ekki um vinnuna líka. Það getur varla verið verra, og þó: Hvernig er það samanborið við að koma út frá lækninum með þær fréttir að eiga ekki nema nokkra mánuði eftir? Það er heilsan, fólkið í kringum okkur og börnin okkar sem eru mestu verðmætin sem við eigum og því megum við ekki gleyma,“ segir hann. „En um leið þýðir það ekki að við eigum að láta eins og ekkert sé að. Þeim sem segja að nóg sé komið af bölmóði, væli og kvörtunum núna þremur árum eftir hrun svara ég fullum hálsi. Það er eins og ef fangavörðurinn hefði sagt Nelson Mandela eftir nokkurra ára vist í steininum að hætta að kveina og kvarta og sætta sig við orðinn hlut. Við látum ekki reiðina stjórna okkur, en hættum samt ekki fyrr en réttlætið hefur náð að sigra.“